Erlent

Sænskir hægrimenn á siglingu eftir formannsskiptin

Atli Ísleifsson skrifar
Ulf Kristersson tók við formennsku í sænska Hægriflokknum í haust.
Ulf Kristersson tók við formennsku í sænska Hægriflokknum í haust. Vísir/AFP
Fylgi við sænska Hægriflokkinn (Moderaterna) eykst í nýrri skoðanakönnun SVT/Novus og segjast nú 20,6 prósent aðspurðra myndu kjósa flokkinn yrði gengið til kosninga í dag.

Fylgið hefur aukist umtalsvert eftir að skipt var um formann, en Ulf Kristersson tók við formennsku af Anna Kinberg Batra fyrr í haust. Fylgi flokksins mældist 16,2 prósent í síðustu könnun.

Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn missa fylgi milli kannana þar sem 10,8 prósent segjast nú styðja Miðflokkinn og 4,8 prósent Frjálslynda flokkinn.

Annars virðist vera litlar breytingar á milli kannanna þar sem Jafnaðarmannaflokkurinn mælist stærstur með 29,8 prósent fylgi. Svíþjóðardemókratar mælast með 16,2 prósent.

Græningjar mælast með 4,0 prósent og Kristilegir demókratar 3,8 prósent. Yrði þetta niðurstaðan myndu flokkarnir tveir ekki ná mönnum inn á þing. Stuðningur við Vinstriflokkinn mældist 7,6 prósent.

Þingkosningar fara næst fram í Svíþjóð 9. september á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×