Innlent

Ölvaður maður á sjötugsaldri grunaður um þjófnað í fjórum verslunum

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn lét ófriðlega þegar lögregla hafði afskipti af honum.
Maðurinn lét ófriðlega þegar lögregla hafði afskipti af honum. Vísir/Eyþór
Ölvaður karlmaður á sjötugsaldri var handtekinn á hádegi í dag grunaður um búðarþjófnað á Laugavegi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þar segir að maðurinn hafi látið ófriðlega við afskipti lögreglu en hann hafði meðferðis ýmsa muni sem talið er að hann hafi stolið úr að minnsta kosti fjórum verslunum. Er málið til rannsóknar og var maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu þar til hægt verður að yfirheyra hann.

Um klukkan tvö í dag var tilkynnt um hestaslys í Mosfellsbæ. Þar hafði kona á áttræðisaldri fallið af hestbaki og hlotið nokkra áverka. Hún var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttökuna í Fossvogi.

Um svipað leyti var ökumaður handtekinn í Garðabæ grunaður um fíkniefnaakstur. Hann var einnig með meint fíkniefni á sér en var látinn laus að lokinni afgreiðslu, líkt og segir í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×