Erlent

Fundu afskorna líkamshluta í frystikistum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fréttamenn hafa setið um hús mannsins í morgun.
Fréttamenn hafa setið um hús mannsins í morgun. Vísir/Getty
Japanska lögreglan hefur handtekið mann eftir að hafa fundið umtalsvert magn líkamsleifa í íbúð hans í borginni Zama, skammt frá höfuðborginni Tokyo.

Lögreglan er sögð á vef breska ríkisútvarpsins hafa komist á slóðir mannsins, Takahiro Shiraishi, er hún leitaði að konu sem ekkert hafði spurst til frá 21. október síðastliðinn. Þess í stað hafi hún fundið tvö afskorin höfuð í frystikistu sem stóð við íbúð mannsins.

Þá er hún sögð hafa fundið hluta af líkum sjö annarra einstaklinga, sem einnig voru geymdir í hvers kyns kælihólfum, inni í íbúð mannsins. Um sé að ræða lík átta kvenna og eins karlmanns sem voru komin mislangt í rotnunarferlinu.

Samkvæmt japönskum miðlum hefur maðurinn játað að hafa myrt fólkið. Að sama skapi segist hann hafa átt við lík þeirra til að fela sönnunargögn. Nágranni Shirashi segir í samtali við fjölmiðla að vond lykt hafi legið frá íbúð mannsins en hann flutti þangað í ágúst síðastliðnum.

Shirashi hafði sett sig í samband við konuna sem lögreglan leitaði að í upphafi þegar hún lýsti á samfélagsmiðlum yfir áhuga á að fyrirfara sér. Áætlað er að hann hafi aðstoðað konuna við sjálfsvígið.

Málið hefur vakið mikla athygli í Japan og hefur fjöldi fréttamanna setið um íbúð mannsins. Nágrannar hans eru í áfalli. „Þetta er rólegt íbúðarhverfi og barnagæsla handan við hornið. Ég trúi ekki að líkin hafi fundist á svæði eins og þessu,“ er haft eftir einum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×