Fótbolti

Modric hefur átt betri daga: Bar vitni í fjársvikamáli eftir tapið gegn Íslandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luka Modric í leik með króatíska landsliðinu.
Luka Modric í leik með króatíska landsliðinu. vísir/getty
Luka Modric, leikmaður Evrópumeistara Real Madrid og króatíska landsliðsins, hefur átt betri daga en þá þrjá síðustu. Sky Sports greinir frá.

Hann bar fyrirliðaband króatíska liðsins á Laugardalsvellinum á sunnudaginn þar sem strákarnir okkar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Modric og félaga að velli, 1-0, með marki Harðar Björgvins Magnússonar.

Modric gat svo ekki flogið beint í sumarfrí eins og flestir aðrir sem spiluðu sama leik því hann þurfti að fara heim til Zagreb og bera vitni í fjársvikamáli gegn Zdravko Mamic, fyrrverandi framkvæmdastjóra Dinamo Zagreb, en hann gengdi þeirri stöðu frá 2003-2016.

Modric viðurkenndi fyrir dómstólum að hann samdi við Mamic um að greiða Dinamo Zagreb helming upphæðarinnar sem Tottenham keypti hann á sumarið 2008 en kaupverðið var á milli 18,5 og 20,2 milljóna punda.

Króatíski miðjumaðurinn viðurkenndi einnig að eftir að hann lét félagið fá sinn skerf lét hann bróður og son Mamic fá óuppgefna upphæð í reiðufé.

„Það sem ég vildi gera var að greiða upp allar mínar skuldir við Mamic svo ég skuldaði honum ekki neitt í framtíðinni,“ sagði Luka Modric fyrir rétti.

Zdravko Mamic er einnig ákærður fyrir að hafa dregið að sér fé í sölum á nokkrum leikmönnum frá Zagreb-liðinu en í dag mætir Dejan Lovren, leikmaður Liverpool, fyrir réttinn og vitnar um sölu sína frá Dinamo Zagreb til Lyon í Frakklandi.

Zdravko Mamic er, þrátt fyrir þessi réttarhöld, enn þá talinn valdamesti maðurinn í króatíska fótboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×