Erlent

Yfirvegaður árásarmaður skaut sjö í samkvæmi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árásarmaðurinn hóf skothríð við fjölbýlishús í borginni San Diego í Kaliforníu-fylki.
Árásarmaðurinn hóf skothríð við fjölbýlishús í borginni San Diego í Kaliforníu-fylki. Vísir/Getty
Tveir eru látnir, þar á meðal árásarmaðurinn, og sex særðir eftir skotárás í San Diego í Kaliforníu-fylki í Bandaríkjunum á sunnudagskvöld. BBC greinir frá.

Árásarmaðurinn var hinn 49 ára Peter Selis en lögregla réði niðurlögum hans á vettvangi. Yfirvöld segja árásina ekki byggða á kynþáttafordómum heldur hafi maðurinn skotið fólkið af handahófi. Fórnarlömbin voru öll annað hvort afrísk-amerísk, þar á meðal sú látna, eða spænskættuð.

Selis hóf skothríð í afmælisveislu sem haldin var við sundlaug í fjölbýlishúsi. Vitni sögðu að íbúi í húsinu hafi boðið Selis í afmælið en hann hafi þá teygt sig í byssu, sem hann hafði innanklæða, og byrjað að skjóta á viðstadda.

Þá er haft eftir öðru vitni að Selis hafi drukkið bjór á meðan árásinni stóð og að hann hafi, að árásinni lokinni, sest í garðstól og „sagt fólki að fara.“ Hann er einnig sagður hafa hringt í fyrrverandi kærustu sína er hann skaut á veislugesti. Selis er talinn hafa búið í fjölbýlishúsinu sem var jafnframt vettvangur árásarinnar.

Borgarstjóri San Diego, Kevin Faulconer, fordæmdi verknaðinn á Twitter-síðu sinni og sagði hann hryllilegan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×