Innlent

Siggi Hlö hættir á Pipar eftir 20 ára starf

Jakob Bjarnar skrifar
Fyrsti formlegi dagurinn sem Siggi Hlö er ekki í vinnu og hann fann sig númer 3 í Costcoröðinni í morgun.
Fyrsti formlegi dagurinn sem Siggi Hlö er ekki í vinnu og hann fann sig númer 3 í Costcoröðinni í morgun.
Sigurður Hlöðversson, sjónvarps-, útvarps- en fyrst og fremst auglýsingamaður – Siggi Hlö – tilkynnti samstarfsfólki sínu á auglýsingastofunni PIPAR\TBWA, nokkuð óvænt, að hann ætlaði að hætta hjá fyrirtækinu.

„Ég veit það ekki. Allt galopið. Ég mun ekki þjást af verkefnaskorti,“ segir Siggi í samtali við Vísi.

Hann segist hafa verið að velta þessu fyrir sér í dágóðan tíma en þetta hafi ekki verið auðvelt skref. Hann hefur starfað við að byggja upp fyrirtækið nú í 20 ár, en Pipar er ein stærsta auglýsingastofa landsins.

„Ég hef verið að búa til þetta glæsilega fyrirtæki með góðu fólki. Verkefni mínu er lokið, stofan er komin í góðar hendur. Ágætt að finna sér eitthvað annað,“ segir Siggi Hlö. Hann er þó ekki að hugsa um að venda kvæði sínu í kross og finna sér annan starfsvettvang. Hann segist alltaf verða með einhverjar tær inni í bransanum, eins og hann orðar það. „Ég verð að leysa af á Bylgjunni, konan mín er með ferðaskrifstofu þar sem þarf, stöðugt verið að bjóða mér í kaffisopa.“

Siggi Hlö segist einnig ætla sér að lækka forgjöfina í golfinu í sumar. Hann er með 14,6 í forgjöf, sem er mjög virðuleg forgjöf, en stefnir á 13. „Það gæti orðið í sumar ef maður verður bara úti á velli. Ég er svolítið eins og barn sem enginn veit hvað á að gera við. Í dag var fyrsti formlegi dagurinn sem ég er ekki í vinnunni. Og hvar endaði ég ekki í morgun? Ég var númer þrjú í röðinni í Costco. Bara gaman að því.“

Siggi Hlö segir að skilnaður hans við fyrirtækið hafi verið í góðu. Hann er og verður áfram einn stærsti eigandi fyrirtækisins. Þetta var sem sagt ekki uppgjör milli hans og félaga hans Valgeirs Magnússonar – Valla Sport?

„Ekkert uppgjör í dimmu reykherbergi. Við Valli erum bestu vinir og það breytist seint. Ég ekki orðinn fimmtugur. Maður á góðan sprett eftir. Í ögrandi verkefnum. Ég elska áskoranir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×