Handbolti

Rúnar skoraði sex en það dugði ekki til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar átti góðan leik í kvöld.
Rúnar átti góðan leik í kvöld. vísir/getty
Sex mörk Rúnars Kárasonar dugðu Hannover-Burgdorf ekki til sigurs gegn Lemgo í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 23-27, Lemgo í vil.

Rúnar og félagar, sem hafa verið ískaldir eftir áramót, eru í 11. sæti deildarinnar með 24 stig.

Sigurinn var afskaplega mikilvægur fyrir Lemgo en með honum komst liðið upp úr fallsæti. Einu stigi munar nú á Lemgo og Íslendingaliðinu Bergischer sem er í þriðja neðsta sæti deildarinnar.

Bergischer mætir einmitt Hannover í lokaumferðinni á laugardaginn á meðan Lemgo etur kappi við Gummersbach.

Í hinum leik kvöldsins tapaði Rhein-Neckar Löwen fyrir Wetzlar, 30-24.

Þetta var fyrsti leikur Löwen eftir að liðið tryggði sér meistaratitilinn annað árið í röð. Þetta var jafnframt fyrsta tap liðsins í þýsku deildinni síðan á öðrum degi jóla í fyrra.

Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson voru ekki á meðal markaskorara Löwen í kvöld.

Meistararnir fá Melsungen í heimsókn í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×