Fótbolti

Griezmann myndi koma út úr skápnum ef hann væri hommi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Antoine Griezmann í leik með liði sínu, Atletico Madrid.
Antoine Griezmann í leik með liði sínu, Atletico Madrid. vísir/getty
Franski framherjinn Antoine Griezmann hefur aðeins opnað á umræðuna um homma í knattspyrnuheiminum og segir að hann myndi koma út úr skápnum ef hann væri hommi.

Griezmann er búinn að vera látlaust í fjölmiðlum síðustu vikur vegna hugsanlegra félagaskipta til Man. Utd en hann hefur heldur betur fært umræðuna núna á annan veg.

„Samkynhneigðir knattspyrnukarlar koma ekki út úr skápnum af því þeir eru hræddir. Við þurfum að líta út fyrir að vera harðir og sterkir en við erum hræddir við það sem fólk segir um okkur,“ sagði Griezmann og bætir við að það myndi ekki trufla hann neitt að vera með samkynhneigðan liðsfélaga.

„Að sjálfsögðu ekki. Ég hef ekkert á móti neinum. Ég virði alla.“

Frakkinn segir að hann myndi stíga stóra skrefið ef hann væri hommi.

„Ég held ég myndi koma út úr skápnum. Auðvitað er samt auðvelt fyrir mig að segja það þar sem ég þarf ekki að ganga í gegnum slíkt. Það er mikið af vondu fólki í kringum fótboltann og sumir leikmenn óttast að mæta á völlinn vitandi að þeim verði úthúðað af áhorfendum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×