Innlent

98 ára, lögblind og prjónar eftir minni

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Hin 98 gamla Jóhanna Hjaltadóttir er lögblind en prjónar enn á hverjum degi samkvæmt minni. Hún hefur hannað óteljandi flíkur og fylgir aldrei uppskrift.

Jóhanna hefur prjónað frá því hún man eftir sér. Áhuginn leynir sér ekki á heimili hennar þar sem prjónið umlykur hvern krók og kima. Hún er 98 ára gömul og lögblind en hefur engan hug á því að leggja prjónana á hilluna.

„Mér finnst gaman að prjóna og það er númer eitt. Svo er gaman þegar maður getur prjónað mismunandi og gefið af sér. Ég hef aldrei prjónað til sölu, nema þegar ég hef selt mynstur og hönnun með," segir Jóhanna.

Flestir Íslendingar hafa líklega séð flíkur hannaðar af Jóhönnu á einhverjum tímapunkti en þær hafa verið fastur liður í prjónablöðum í gegnum árin. Sjálf segist hún ekki hafa tölu á eigin hönnunum.

„Þær eru óteljandi. Það er ómögulegt að telja þær vegna þess að ég hef aldrei verið að prjóna eftir mynstrum. Alltaf bara gert þetta sjálf. Ég sé þetta fyrir mér í huganum áður en ég fer að prjóna," segir hún.

Í dag prjónar Jóhanna aðallega fyrir fjölskylduna og heimilisgesti en í gegnum tíðina hefur hún fært þekktum Íslendingum á borð við Louisu Matthíasdóttur og Vigdísi Finnbogadóttur gjafir.

„Ég bjó til nýtt mynstur með trjám handa Vigdísi af því hún er svo mikil tjáræktarkona. Og hún var mjög ánægð með það," segir Jóhanna.

Þar sem sjónin hefur gefið sig treystir Jóhanna alfarið á minnið. Hún segir lykkjurnar og mynstrin greipt í hugann.

„Þetta hefur alltaf verið þar. Og ég hef ekkert getað gert af því. Þetta er bara svona."

 

„Þetta bara kemur af sjálfu sér. Lykkjurnar bara koma til mín," segir Jóhanna glaðbeitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×