Lars Lagerbäck, fyrrum þjálfari íslenska fótboltalandsliðsins, á það sameiginlegt með nýjum formanni KSÍ, Guðna Bergssyni, að hafa hafið störf á nýjum stað á mánudaginn.
Lagerbäck hóf þá formlega störf sem nýr landliðsþjálfari Noregs og mætti á skrifstofu norska sambandsins á Ullevi-leikvanginum.
„Ég hef séð Tékkaleikinn og er byrjaður að skoða leikmenn. Í síðustu viku sá ég sjö eða átta leiki, leiki hjá St. Etienne, Hull, samantekt með Vålerenga, smá af Rosenborg, FC Kaupmannahöfn og Fulham,“ sagði Lars Lagerbäck í sínu fyrsta viðtali eftir að hann hóf störf.
Lagerbäck býst ekki við að ræða við leikmenn fyrr en að hópurinn kemur saman til æfinga í London í mars næstkomandi. Hann vill heldur ekkert gefa upp um einstaka leikmenn strax í samtölum við norska blaðamenn.
Lagerbäck mun því líklega kynnast þeim persónulega í frysta sinn í æfingabúðunum sem fara fram á æfingasvæði Fulham í næsta mánuði.
Lars ætlar að setja saman 35 til 40 manna hóp leikmanna sem hann telur að séu inn í myndinni en svipað var upp á teningnum þegar hann stýrði íslenska landsliðinu.
Það styttist í fyrsta leik liðsins undir hans stjórn en hann verður á móti Norður-Írum í undankeppni HM 2018 og fer fram á Windsor Park í Belfast 26. mars. Lagerbäck mun tilkynna fyrsta hópinn sinn á blaðamannafundi 19. mars.
Lagerbäck er óhræddur við að ýta undir mikilvægi leiksins í fyrrnefndu viðtali við NTB.
„Þessi leikur skiptir öllu máli hvað varðar undankeppnina. Ef við töpum á móti Norður-Írlandi þá er ljóst að við eigum enga möguleika á að komast í umspil. Ef við vinnum aftur á móti þá eigum við enn möguleika,“ sagði Lars Lagerbäck.
Noregur fékk þrjú stig út úr fyrstu fjórum leikjum sínum eða fjórum stigum minna en Norður-Írland sem er eins og er í öðru sæti riðilsins. Þjóðverjar eru með fullt hús á toppnum og fátt kemur í veg fyrir að þeir vinni riðilinn og tryggi sig inn á HM.
Fyrsti heimaleikur norska liðsins undir stjórn Lagerbäck í undankeppninni verður síðan á móti Tékkum í júní. Lars þekkir það nú að vinna Tékka á heimavelli í júní.

