Erlent

Fyrrverandi forseti Georgíu handtekinn eftir æsilegan eltingarleik á húsþökum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikael Saakashvili glímdi við lögreglu í dag.
Mikael Saakashvili glímdi við lögreglu í dag. Vísir/AFP
Mikhael Saakashvili, fyrrverandi forseti Georgíu, var handtekinn í dag í Kiev, höfuðborg Úkraínu, eftir æsilegan eltingarleik á húsþökum í miðborg höfuðborgarinnar. Mótmælendum sem mótmæltu handtökunni tókst þó að leysa hann úr haldi lögreglu og tókst honum að flýja.

Saakashvili, sem gerður var útlægur frá Georgíu og sviptur ríkisborgararétti þar árið 2015 eftir að hann gerðist úkraínskur ríkisborgari. Yfirvöld í Georgíu vilja hafa hendur í hári forsetans fyrrverandi sem lét af embætti árið 2013, en hann er sakaður um að hafa misbeitt valdi sínu sem forseti.

Hefur hann á undanförnum árum gert sig gildandi í úkraínskum stjórnmálum og unnið náið með Petro Poroshenko, forseta Úkraínu. Kastast hefur þó í kekki á milli þeirra og var Saakashvili orðinn einn af helstu stjórnarandstæðingum í Úkraínu. Hann var sviptur úkraínskum ríkisborgararétt fyrr á árinu og virðist því nú vera án ríkisfangs.

Lögregla réðist inn á heimili hans í Kiev í dag sem endaði með því að hann var handtekinn eftir eltingarleik á húsþökum við heimili sitt, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Hundruð mótmælenda voru þó samankomnir til að mótmæla handtökunni. Réðust þeir að lögreglubílnum og tókst þeim að frelsa Saakashvili sem gengur nú laus.

Talið var líklegt að yfirvöld í Úkraínu hafi ætlað sér að framselja hann til Georgíu en óvíst er hvar hann er nú niðurkominn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×