Þessi þrautreyndi leikmaður hefur verið lengi í landsliðinu og er í enn eitt skiptið lengi með stelpunum á hóteli en þær fara árlega til Algarve og hafa svo farið á þrjú stórmót fyrir utan allar aðrar landsliðsferðir.
Markvörðurinn segir lítið mál að láta sér ekki leiðast á hótelinu en hótellífið getur alveg tekið á á milli leikja.
„Við reynum bara að gera eitthvað skemmtilegt saman og reyna að brjóta þetta upp með einhverju á milli þess sem við höngum inn á herbergi að horfa á mynd eða lesa,“ segir Sandra sem finnst blandan í hópnum að þessu sinni mjög góð.
„Mér finnst mórallinn í hópnum mjög góður og við náum allar vel saman alveg sama hversu gamlar við erum. Það er alltaf líf og fjör og mikil einbeiting. Við smellum mjög vel saman, finnst mér,“ segir hún.
Sandra var varamarkvörður Þóru B. Helgadóttur á árum áður ásamt Guðbjörgu Gunnarsdóttur en Guðbjörg tók stöðuna á EM 2013 og hefur Sandra síðan verið fyrsti varamarkvörður á eftir Guggu. Ísland er nú búið að spila átta leiki á stórmóti og hefur Sandra verið á bekknum í þeim öllum.
„Auðvitað tekur þetta á en ég er tilbúin fyrir allt. Mér finnst þetta alltaf jafngaman. Það er gaman að vera hluti af þessu hópi og gaman að fá þessa reynslu. Maður hugsar ekkert of mikið um það að maður sé ekki að spila,“ segir Sandra.
„Ég hoppa bara inn á ef eitthvað gerist og svo fæ ég að spila æfingaleikina. Maður þarf bara að vera klár því enginn veit það gerist. Það er oft stutt á milli í þessu. Maður er bara á tánum.“
Þrátt fyrir að vera aldrei líkleg til að spila stóru leikina þar sem Guðbjörg á markvarðarstöðuna skuldlaust nýtur Sandra þess að vera í íslenska hópnum.
„Í rauninni ekki. Ég er búin með þann pakka að vera alltaf að svekkja mig. Ég breyti ekki ákvörðun þjálfarans. Ég æfi vel og er alltaf klár. Svo finnst mér þetta líka bara ótrúlega gaman. Það er gaman að vera í þessum hóp og æfa með svona góðu liði. Ég hugsa bara fyrst og fremst um það að vera með. Það er lítið annað fyrir mig að gera,“ segir Sandra Sigurðardóttir.
Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook og Twitter.