Innlent

Lýstu yfir vanþóknun á fyrrverandi skátahöfðingja

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bragi Björnsson var skátahöfðingi Bandalags íslenskra skáta.
Bragi Björnsson var skátahöfðingi Bandalags íslenskra skáta. Vísir
Uppfært kl. 20:52: Í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta kemur fram að gerð hafi verið mistök þegar talað var um vantrauststillögu, en um er að ræða vanþóknunartillögu en ekki vantrauststillögu.

Aukaskátaþing Bandalags íslenskra skáta samþykkti í dag vantrauststillögu á Braga Björnsson, fyrrverandi skátahöfðingja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjórn bandalags íslenskra skáta (BÍS).



Þingið felldi hins vegar vantrauststillögu á Fríði Finu Sigurðardóttur, aðstoðarskátahöfðingja og starfandi skátahöfðingja, sem einnig var lögð fram í dag.

Báðar tillögur voru bornar fram vegna mikillar óánægju með störf skátaforystunnar, en hún sagði Hermanni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta, upp störfum í desember.

Að sögn Braga Björnssonar, var ákveðið að segja Hermanni upp vegna trúnaðarbrests milli framkvæmdastjóra og stjórnar, en meirihluti stjórnar taldi rétt að ganga til samninga um starfslok Hermanns.

Mikil óánægja var innan skátahreyfingarinnar með uppsögnina og skorað á stjórn hreyfingarinnar að draga uppsögnina til baka á þinginu í dag, en sú áskorun var samþykkt.

Fríður Finna mun starfa áfram sem skátahöfðingi fram að skátaþingi í næsta mánuði, þegar hún mun láta af embætti, en hún gefur ekki kost á sér til áframhaldandi starfa. Því verður nýr skátahöfðingi kosinn, auk aðstoðarskátahöfðingja, formanni ungmennaráðs og formanni upplýsingaráðs.

Í tilkynningunni kemur fram að þetta hafi reynst mjög erfiður og tilfinningaþrunginn tími fyrir alla skátahreyfinguna, en að skátar líti nú björtum augum til framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×