Innlent

Verksmiðja United Silicon sú eina sem liggur undir grun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verksmiðja United Silicon er afar umdeilt.
Verksmiðja United Silicon er afar umdeilt. Vísir/Vilhelm
„Við tengjum þetta saman, eins og staðan er í dag. Það er ekkert annað sem við teljum líklegt,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun um hvort leita megi að upptökum arsenmengunar í grennnd við verksmiðju United Silicon í Helguvík víðar en hjá verksmiðjunni.

Fyrirtækið sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem gerðar voru athugasemdur við fréttaflutning þess efnis að arsenmengun frá verksmiðju fyrirtækisins hafi mælst um tuttugu sinnum meiri en heimild sé fyrir í starfsleyfi verksmiðjunnar.

Í tilkynningunni sagði að leita þyrfti að upptökum mengunarinnar víðar en hjá verksmiðjunni í ljósi þess að gildi arsens í sýnum hafi hækkað áður en verksmiðja United Silicon tók til starfa. Þá hafi ríkjandi vindátt staðið að verksmiðjunni en ekki frá auk þess sem að hæsta gildi arsens hafi mælst í lok desember sem kynni að skýrast af notkun flugelda um áramót.

Sigrún segir að ljóst sé að gildi arsens hækki áður en að verksmiðjan hafi tekið til starfa en það sem helst hafi verið tengt við það sé uppskipun í tengslum við starfsemi verksmiðjunnar eða prufukeyrsla á búnaði.

Ljósbláa línan táknar gildi arsens í loftsýnum á mæli United Silicon við Hólmbergsbraut í Reykjanesbæ, skammt frá verksmiðju United Silicon í Helguvík.
Hún segir að Umhverfisstofnun hafi ekki einhvern annan líklega losunaruppsprettu í huga og að útskýring forsvarsmanna United Silicon um að notkun flugelda um áramót geti skýrt hátt gildi arsens í lok desember skýri þó ekki af hverju gildi arsens hafi haldist hátt frá því að verksmiðjan tók til starfa.

„Það losna mengunarefni við áramót og við vitum það alveg,“ segir Sigrún. „Það skýrir ekki það að arsen fer upp nálægt því þegar þeir hefja starfsemi og helst uppi. Það helst nokkuð hátt og línurnar eru ekki að rokka mikið.“

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa farið fram á það við Umhverfisstofnun að verksmiðjunni verði lokað tímabundið á meðan úrbætur verði gerðar svo koma megi í veg fyrir mengun frá verksmiðjuni. Fulltrúar Umhverfisstofnunar funda með bæjarráði Reykjanesbæjar á fimmtudaginn þar sem farið verður yfir stöðu mála.

Sigrún segir að Umhverfisstofnun muni taka erindi bæjarstjórnar um tímabundna lokun verksmiðjunnar til greina. Það hafi þó verið niðurstaðan á fundi með nefnd um sóttvarnir í gær að íbúum væri ekki hætta búin í bráð vegna þeirrar mengunar sem stafar frá verksmiðjunni.

Unnið er nú að óháðri verkfræðilegri úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar en þangað til að slík úttekt fer fram er rekstur fyrirtækisins takmarkaður við rekstur eins ljósbogaofns.


Tengdar fréttir

„Heilsa íbúa gengur fyrir“

Fulltrúar Umhverfisstofnunar munu fara á fund bæjarráðs Reykjanesbæjar á fimmtudaginn þar sem staða og mengun verksmiðju United Silicon verður rædd.

Íbúum stafar ekki bráð hætta af mengun

„Það er hins vegar mikilvægt að það verði dregið úr þessari losun arsens og Umhverfis­stofnun mun fylgja því eftir,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×