Erlent

Blaðamenn í Rússlandi munu bera vopn

Samúel Karl Ólason skrifar
Forsvarsmenn vopnaframleiðandans Kalashnikov ætla að veita starfsmönnum dagblaðsins tíu prósenta afslátt á vopnum sem eru ekki banvæn.
Forsvarsmenn vopnaframleiðandans Kalashnikov ætla að veita starfsmönnum dagblaðsins tíu prósenta afslátt á vopnum sem eru ekki banvæn. Vísir/AFP
Forsvarsmenn dagblaðsins Novaya Gazeta ætla að útvega blaðamönnum sínum vopn og þjálfun í burði þeirra. Vopnin munu ekki vera banvæn en ofbeldi gegn gagnrýnendum stjórnvalda í Rússlandi hafa færst í aukana að undanförnu. Einn af ritstjórum dagblaðsins segir yfirvöld ekki gera neitt í að vernda starfsmenn sína og því muni þau sjá um það sjálf.

Í síðustu viku var útvarpsmaður stunginn í hálsinn á skrifstofu útvarpsstöðvarinnar Echo of Moscow.

„Þegar blaðamenn eru hjálparlausir vegna lögleysu á götunum og óáreiðanleika öryggisstofnana, er engin önnur leið,“ sagði Sergei Sokilov við blaðamann AFP fréttaveitunnar.



Aðalritstjóri blaðsins, Dmitry Muratov sagði í viðtali við Echo of Moscow í gær að dagblaðið myndi kaupa umrædd vopn. Forsvarsmenn vopnaframleiðandans Kalashnikov ætla að veita starfsmönnum dagblaðsins tíu prósenta afslátt.

Auk þess að vopnvæða fréttastofuna sagði Muratov að gripið yrði til annarra öryggisráðstafana sem hann vildi ekki fara nánar út í. Þetta væru þó nauðsynleg skref.

Nokkrir blaðamann Novaya Gazeta hafa verið myrtir á undanförnum árum. Þar á meðal blaðakonan Anna Politkovskaya sem var skotin til bana fyrir utan íbúð hennar í Moskvu árið 2006. Hún var að þá að rannsaka pyntingar yfirvalda í Téténíu og hafði reglulega gagnrýnt ríkisstjórn Vladimir Putin.

Gagnrýnendur segja stjórnvöld í Rússlandi hafa ýtt undir hatur gagnvart blaðamönnum og aukið líkurnar á árásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×