Erlent

IKEA fær á baukinn í Kína

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það eru fleiri en Íslendingar sem fjölmenna við opnanir nýrra verslana. Þessi mynd er frá opnun fyrstu IKEA-verslunarinnar í Shangdong-héraði í ágúst síðastliðnum.
Það eru fleiri en Íslendingar sem fjölmenna við opnanir nýrra verslana. Þessi mynd er frá opnun fyrstu IKEA-verslunarinnar í Shangdong-héraði í ágúst síðastliðnum. Vísir/Getty
Húsgagnarisinn IKEA hefur beðist afsökunar á auglýsingu sem sýnd var í miðlum í Kína og farið hefur fyrir brjóstið á mörgum þar í landi.

Í auglýsingunni má sjá móður skamma dóttur sína fyrir að mæta ekki með kærasta í matarboð til foreldranna. „Ekki kalla mig mömmu fyrr en þú mætir hingað með kærasta,“ segir hún áður en velklæddur ungur maður birtist með blómvönd. 

Kætast þá foreldrar óstjórnlega og draga fram margvíslegan borðbúnað og húsgögn - allt að sjálfsögðu úr IKEA. Auglýsingunni lýkur svo á því að foreldrarnir færa unga manninum skál fulla af hrísgrjónum á meðan dóttirin fylgist undrandi með furðulegu háttalagi foreldra sinna.

Jafnréttissinnar í Kína gagnrýndu búðina fyrir ónærgætni í garð einhleypra kvenna, en þær hafa í áraraðir þurft að sæta margvíslegum þrýstingi í samfélagi sem leggur afar mikið upp úr hjónaböndum.

IKEA hefur nú ákveðið að taka auglýsinguna úr sýningu. Hana má þó sjá hér að neðan.
 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×