Fótbolti

Bolt vill verða einn besti knattspyrnumaður heims

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bolt á sama stall og Messi og Ronaldo? Það er krefjandi áskorun.
Bolt á sama stall og Messi og Ronaldo? Það er krefjandi áskorun. vísir/getty
Fljótasti maður allra tíma, Usain Bolt, er alvara með því að reyna að verða atvinnumaður í knattspyrnu. Ekki bara það heldur stefnir hann á að vera einn af þeim bestu í heiminum.

Hinn 31 árs gamli Bolt hefur lagt hlaupaskóna á hilluna og hefur margoft greint frá þeim draumi sínum að spila með Man. Utd. Það er nú ekki líklegt að hann fái samning þar.

Hann átti reyndar að fá að spila með liðinu í goðsagnaleik á dögunum en meiðsli héldu honum frá vellinum að þessu sinni.

„Það er mitt markmið að verða knattspyrnumaður og mér er alveg sama hvað fólki finnst um það,“ sagði Bolt en tólf félög hafa boðið honum til æfinga hjá sér. Eitt þeirra liða er Borussia Dortmund.

„Boðið til Dortmund er opið og ég mun örugglega kíkja þangað er ég hef jafnað mig á meiðslunum. Ég ætla að reyna að komast að því hvort ég geti orðið einn af bestu knattspyrnumönnum heims. Ég mun ekki ljúga að mér. Ef ég get það ekki þá bara gef ég drauminn upp á bátinn. Maður á samt að elta drauma sína.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×