Innlent

Læknar sem vilja heim frá Svíþjóð fá ekki flýtimeðferð í dómsmáli

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Átta læknar hafa höfðað dómsmál til að reyna að komast á rammasamning SÍ.
Átta læknar hafa höfðað dómsmál til að reyna að komast á rammasamning SÍ. Vísir/Ernir
Hæstiréttur hafnar kröfu íslensks svæfingarlæknis, sem býr í Stokkhólmi, um að mál hans gegn íslenska ríkinu fái flýtimeðferð.

Læknirinn krefst þess að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um að hafna umsókn hans að rammasamningi SÍ og sérgreinalækna verði felld úr gildi.

Fyrir rúmum mánuði stefndu átta íslenskir sérgreinalæknar ríkinu því þeir voru ekki teknir inn á rammasamninginn. Synjunin var í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra um að hleypa ekki fleirum á samninginn vegna stöðu fjárlagaliðarins.

Læknarnir vilja starfa á Íslandi en telja að það að þeim sé ekki hleypt á samninginn geti kippt grundvelli undan rekstri þeirra hér á landi.

„Kjósi umbjóðandi minn að starfa í ójafnri samkeppni við aðra meðan úrlausnar er beðið, þá mun ríkja óvissa um forsendur þeirra starfa og mögulega skaðabótaskyldu íslenska ríkisins, og þetta hefur bein áhrif á ákvörðun fjölskyldunnar um búsetu hér á landi eða áfram í Svíþjóð,“ segir í bréfi lögmanns svæfingarlæknisins Magnúsar Hjaltalín Jónssonar til dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Héraðsdómari féllst ekki á að aðstæður væru með því móti að unnt væri að fallast á flýtimeðferð. Ekki væri séð með hvaða móti ákvörðun SÍ hefði breytt aðstöðu læknisins. Því var flýtimeðferð hafnað.

Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð héraðsdómara. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×