Fótbolti

Sverrir Ingi farinn til Rostov í Rússlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverrir Ingi Ingason er farinn til Rússlands.
Sverrir Ingi Ingason er farinn til Rússlands. Mynd/Heimasíða Rostov
Sverrir Ingi Ingason, landsliðamaður í knattpsyrnu, er genginn til liðs við rússneska liðið Rostov. Hann skrifaði í morgun undir þriggja ára samning við félagið með möguleika á eins árs framlengingu.

Sverrir Ingi var á mála hjá Granada á Spáni en hann fór til félagsins frá Lokeren í Belgíu í upphafi ársins. Granada féll úr spænsku deildinni en Rostov þurfti samkvæmt fjölmiðlum ytra að borga tvær milljónir evra, 233 milljónir króna, fyrir Sverri Inga.





„Ég er auðvitað afar hamingjusamur. Það er mikill heiður fyrir mig að fá tækifæri til að spila með Rostov. Kannski er þetta ein af hamingjusömustu stundum lífs míns,“ var haft eftir Sverri Inga á heimasíðu Rostov. Hann mun klæðast treyju númer fimmtán frá félaginu.

Rostov hafnaði í sjötta sæti í rússnesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Liðið leikur í Rostov-on-Don í suðvesturhluta Rússlands, skammt frá landamærum við Úkraínu.



Liðið keppti í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili og hafnaði í þriðja sæti síns riðils, á eftir Atletico Madrid og Bayern München og á undan PSV Eindhoven. Rostov sló út Ajax í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Rússneska liðið komst svo í 16-liða úrslit Evrópudeildar UEFA eftir áramót en tapaði þar fyrir Manchester United, 2-1 samanlagt. Rostov keppir þó ekki í Evrópukeppni þetta tímabilið.

Rostov er nú í æfingaferð í Austurríki og var Sverrir Ingi í fylgd með Eiði Smára Guðjohnsen þegar hann hitti liðið í dag. Eiður Smári og Sverrir Ingi eru með sama umboðsskrifstofu, hina íslensku Total Footall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×