Enski boltinn

Stoðsending númer 100 kom í gær hjá Fabregas

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fabregas í leiknum í gær.
Fabregas í leiknum í gær. Vísir/Getty
Cesc Fabregas, spænski miðjumaður Chelsea, varð í gær sá leikmaður sem þurfti fæsta leiki til þess að ná hundrað stoðsendingum í ensku úrvalsdeildinni.

Hundraðasta stoðsendingin kom í marki Willian er Chelsea komst aftur yfir í 4-2 sigri á Stoke en mörkin úr leiknum má sjá hér.

Aðeins fjórir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hafa náð þessum merka áfanga en það tók Fabregas 293 leiki með erkifjendunum Chelsea og Arsenal til þess að ná þessum áfanga.

Sjá einnig: Þrettán sigrar í röð hjá Chelsea | Öll úrslit dagsins

Tók það Ryan Giggs 367 leiki að ná 100 stoðsendingum en Wayne Rooney þurfti 445 leiki til að ná þessu afreki á meðan Frank Lampard náði 100. stoðsendingunni í 559 leik sínum fyrir Chelsea.

Fabregas átti tvær stoðsendingar í leiknum í gær en hann kemst væntanlega upp fyrir Lampard yfir stoðsendingahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili en Cesc vantar aðeins tvær stoðsendingar til þess.

Hann á þó enn langt í land með að ná goðsögninni Ryan Giggs sem gaf alls 162 stoðsendingar á ferli sínum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×