Erlent

Bandarískur rappari handtekinn og grunaður um morð

Atli Ísleifsson skrifar
Scorpio, Melle Mel, Kidd Creole (annar frá hægri) og Raheim í The Furious Five mættu á Waldorf Astoria hótelið í New York árið 2007 þegar of The Furious Five var tekin inn í Frægðarhöll rokksins.
Scorpio, Melle Mel, Kidd Creole (annar frá hægri) og Raheim í The Furious Five mættu á Waldorf Astoria hótelið í New York árið 2007 þegar of The Furious Five var tekin inn í Frægðarhöll rokksins. Vísir/AFP
Lögregla í Bandaríkjunum hefur handtekið rapparann The Kidd Creole vegna gruns um að hafa stungið 55 ára heimilslausan karlmann til bana í New York í gærkvöldi.

Hinn 57 ára Nathaniel Glover, eins og Kidd Creole heitir réttu nafni, á tvívegis að hafa stungið manninn í bringuna og svo einu sinni í höfuðið eftir að sá hafði hreytt ókvæðisorðum í hann. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af áverkum sínum.

The Kidd Creole er talinn vera meðal brautryðjanda á sviði hiphoptónlistarinnar og var einn liðsmanna Grandmaster Flash and the Furious Five sem varð árið 2007 fyrsta hiphopsveitin til að vera tekin inn í Frægðarhöll rokksins.

Kidd Creole var handtekinn á Manhattan og segir lögregla að árásarmaðurinn og fórnarlambið hafi ekki þekkst.

Rapparinn hefur áður komist í kast við lögin – árið 1982, 1995 og 2007 – en í öll skiptin var hann handtekinn fyrir ólöglegan vopnaburð.

Grandmaster Flash and the Furious Five var stofnuð í Suður-Bronx í New York árið 1976. Var sveitin skipuð plötusnúðnum Grandmaster Flash og svo fimm röppurum – þeim Melle Mel, Kidd Creole, Cowboy, Mr. Ness/Scorpio og Rahiem.

Þekktasta lag sveitarinnar er The Message af samnefndri plötu sem gefin var út árið 1985.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×