Innlent

Allt orðið fullt á bráðamóttöku

Sveinn Arnarsson skrifar
Erill á Landspítala.
Erill á Landspítala. Vísir/eyþór
Yfirfullt er nú á bráðamóttöku Landspítalans og er rúmanýtingin um 114 prósent, að sögn Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis bráðalækninga á Landspítala.

„Það hefur verið mikið að gera hjá okkur undanfarna daga. Nú er svo komið að sjúklingum sem koma til okkar er raðað eftir bráðleika. Þeir einstaklingar sem þurfa að leggjast inn til okkar geta lent í því að festast á bráðamóttöku og liggja inni hjá okkur í einhvern tíma,“ segir Jón Magnús.

„Venjulega tekur um sex tíma að fara í gegnum þær rannsóknir sem þarf að gera áður en sjúklingur er lagður inn á legudeild. Hins vegar er það svo núna að menn eru að bíða í allt að 15 tíma og við erum með einstaklinga sem hafa beðið á annan sólarhring eftir því að komast á deild.“

Jón Magnús segir aðalvandamálið nú vera að daglega liggi á LSH yfir eitt hundrað einstaklingar sem bíði eftir vist á dvalarheimilum fyrir aldraða.

„Að okkar mati liggur flöskuhálsinn svolítið þar. Ef hægt væri að koma þessum einstaklingum á dvalarheimili yrði það mun auðveldara fyrir okkur,“ segir Jón Magnús. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×