Hæstiréttur á Spáni staðfesti í dag 21 mánaða langan fangelsisdóm Lionel Messi sem hann var dæmdur til á síðasta ári. Það er þó ólíklegt að hann þurfi að fara í steininn. BBC greinir frá.
Messi og faðir hans, Jorge, sem sér um fjármál þeirra feðga, voru báðir sakfelldir í fyrra fyrir að stinga ríflega fjórum milljónum evra undan skatti.
Fangelsisdómur Jorge var styttur því hann var fljótur að borga til baka hluta upphæðarinnar sem hann sveik undan skattinum.
Á Spáni geta þeir sem dæmdir eru til styttri fangelsisvistar en tveggja ára fengið að afplána dóminn á skilorði. Þannig gæti farið í máli Messi.
Dómsmálið fer nú aftur til réttarins í Barcelona sem sakfelldi Messi-feðga og skellti þessum 21 mánuði á fótboltagoðið. Þar koma örlög Lionel Messi endanlega í ljós.
Messi, sem hefur fimm sinnum verið útnefndur besti fótboltamaður heims, hefur alltaf neitað aðild sinni að málinu og sagði við réttarhöldin í júní í fyrra að hann husaði bara um að spila fótbolta.
Hæstiréttur á Spáni staðfestir fangelsisdóm Lionel Messi
Tómas Þór Þórðarson skrifar
