Innlent

Hindranir daglegs skólalífs dregnar fram í stuttmynd

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Maður verður að sjá húmorinn í lífinu. Þetta segja nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun við Háskóla Íslands, en þeir frumsýndu í dag gamansama stuttmynd sem sýnir aðgangshindranir sem þeir glíma við á hverjum einasta skóladegi. 

Hún er á léttari nótunum þó drepið sé á nokkuð alvarlegu máli, en höfundar myndarinnar segja aðgengismálum í Stakkahlíð, þar sem námið fer fram, mjög ábótavant. Gagnrýna nemendurnir m.a. aðgang að salernum, en þeir sem eru í stærstu hjólastólunum geta að sögn þeirra ekki notað nein salerni í húsinu. Þá sé lyftan afar lítil og taki aðeins einn stól í einu og taki kaffipásur því afar langan tíma þegar nemendur bíða í röð í stólum sínum. 

Kristín og Linda segja að aðstæðurnar séu í heildina ekki alslæmar, en það sé hins vegar nauðsynlegt að þeir sem geta þrammað óhindrað um ganga skólans átti sig á dagsdaglegum erfiðleikum þeirra sem glíma við mikla hreyfihömlun. Þær eru sammála um að besta leiðin til þess að miðla sínum veruleika hafi verið í formi léttrar gamanmyndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×