Innlent

Fylgi við ríkisstjórnina í frjálsu falli

Jakob Bjarnar skrifar
Ekki er hægt að segja að þeir forkólfar ríkisstjórnarinnar, Óttarr, Bjarni og Benedikt, njóti mikilla vinsælda meðal landsmanna.
Ekki er hægt að segja að þeir forkólfar ríkisstjórnarinnar, Óttarr, Bjarni og Benedikt, njóti mikilla vinsælda meðal landsmanna. visir/ernir
Ekki blæs byrlega fyrir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar en samkvæmt nýlegri könnun Gallup hefur hún tapað um þremur prósentum fylgis síns frá í síðustu könnun eða frá því fyrir mánuði. Þessi breyting er tölfræðilega marktæk en tæplega 38 prósent þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni segjast styðja ríkisstjórnina.

Þrjú prósent kann ekki að virðast mikið í hinu stóra samhengi en sú tala segir ekki nema hálfa söguna. Aldrei hefur nokkur stjórn notið eins lítils fylgis við upphaf valdatíma síns og sú sem nú situr. Ekki er af miklu að taka.

Skilaðu lyklunum

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, hóf feril sinn með 41,1 prósenta fylgi ef litið er til kannana Gallups. Fylgið er nú komið niður í 38,5 prósent. Og samkvæmt línuritum er stefnan niður á við.

Línurit Gallup sem sýnir fylgi við ríkisstjórnina. Aldrei áður hefur ríkisstjórn tekið við völdum sem nýtur eins lítils fylgis.
Í febrúar 2009 tók ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur við stjórnartaumunum, eina hreina vinstri stjórnin sem setið hefur – Samfylking og Vinstri grænir í stjórnarsamstarfi. Sú stjórn naut mikils meðbyrs í fyrstu, 65 prósent aðspurðra sögðu Gallup að þeir styddu þá ríkisstjórn. Þegar hún fór frá kvað við annan tón og þá hafði þeirri ríkisstjórn nánast tekist að slá met í óvinsældum. Fylgið mældist 34 prósent en fór lægst í 28,4 prósent. Fleyg eru orð núverandi forsætisráherra á þingi þá: „Skilaðu lyklunum Jóhanna,“ sagði Bjarni Benediktsson þá stjórnarandstöðuþingmaður.

Guð blessi Ísland

Hins vegar, ef litið er til seinni tíma stjórnmálasögu, má segja að sjaldan hafi verið eins mikill hugur í landsmönnum og þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde tók við völdum, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking í eina sæng og 83 prósent landsmanna, eða hlutfall þeirra sem afstöðu tóku í júní á því herrans ári 2007 og Gallup spurði, var ákaflega ánægður með það.

En, þær björtu vonir breyttust í martröð. Óveðursskýin voru að hrannast upp; hrun, búsáhaldabylting, „Guð blessi Íslands“ og stjórnin hrökklaðist frá. Hún mældist þá með 26 prósenta fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×