Innlent

Félag framhaldsskólakennara harmar „yfirtöku Tækniskólans á Fjölbrautaskólanum við Ármúla“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tækniskólinn.
Tækniskólinn. Vísir/Pjetur
Félag framhaldsskólakennara tekur skýra afstöðu gegn fyrirhugaðri sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla að því er segir í yfirlýsingu frá félaginu vegna frétta um að sameining skólanna sé á döfinni.

Í yfirlýsingunni segir að að rekstarform skólanna sé ólíkt, Tækniskólinn sé einkarekinn skóli en Fjölbrautaskólinn við Ármúla ríkisskóli. Segir þar jafnframt að aðgerðin beri með sér að þarna sé verið að reyna að einkavæða Fjölbrautaskólann við Ármúla.

„Á Íslandi hefur stefnan verið sú að allir hafi jöfn tækifæri til náms og að menntun sé hluti af velferðarkerfinu en ekki vettvangur markaðsvæðingar. Það er verulegt áhyggjuefni ef ætlunin er að einkavæða menntakerfið einn skóla í einu, eins og þessi aðgerð ber með sér,“ segir í yfirlýsingunni.

Harmar félagið þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í málinu og segir félagið að kalla megi sameiningaráformin „yfirtöku Tækniskólans á Fjölbrautaskólanum við Ármúla“.

„Stór hópur nemenda og fjöldi starfsfólks bíður nú í óvissu um framtíð sína. Það þolir enga bið að kalla þennan hóp saman og upplýsa ítarlega um framhald málsins,“ segir í yfirlýsinginnu þar sem einnig er kallað eftir skýrri aðgerðaráætlun og rökstuðningi fyrir ákvörðun um sameiningu með tilliti til rekstarlegra og faglegra sjónarmiða.

Yfirlýsing Félags framhaldsskólakennara í heild sinni

„Félag framhaldsskólakennara tekur skýra afstöðu gegn fyrirhugaðri sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla. Rekstrarform þeirra og áherslur eru ólíkar. Tækniskólinn er einkarekinn skóli með framlagi frá ríkinu í eigu nokkurra félagasamtaka og hefur starfað frá 2008 en Fjölbrautaskólinn við Ármúla er ríkisskóli, stofnaður 1981.

Á Íslandi hefur stefnan verið sú að allir hafi jöfn tækifæri til náms og að menntun sé hluti af velferðarkerfinu en ekki vettvangur markaðsvæðingar. Það er verulegt áhyggjuefni ef ætlunin er að einkavæða menntakerfið einn skóla í einu, eins og þessi aðgerð ber með sér.

Ástæða þess að framhaldsskólar eru opinberar stofnanir er sú að hlutverk þeirra er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi, óháð efnahag og félagslegri stöðu. Hætt er við að þessar hugmyndir fari forgörðum ef þær eru að fullu settar í hendur einkaaðila.

Félag framhaldsskólakennara harmar þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið um að það sem kalla má yfirtöku Tækniskólans á Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Stór hópur nemenda og fjöldi starfsfólks bíður nú í óvissu um framtíð sína. Það þolir enga bið að kalla þennan hóp saman og upplýsa ítarlega um framhald málsins.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×