Innlent

Telur einsýnt að bæjarráðsmenn hafi verið blekktir

Sveinn Arnarsson skrifar
Akureyrarbær mat fyrirtækið á um 880 milljónir króna. Hagnaður fyrirtækisins var 555 milljónir í fyrra.
Akureyrarbær mat fyrirtækið á um 880 milljónir króna. Hagnaður fyrirtækisins var 555 milljónir í fyrra. vísir/pjetur
Fjárfestingafélagið KEA keypti í fyrra 15,2 prósenta hlut í Tækifæri af Akureyrarbæ fyrir samtals 116 milljónir. Nokkrum mánuðum síðar var upplýst um að Tækifæri hefði hagnast um 555 milljónir á árinu 2016. KEA keypti upp hluti sveitarfélaga í upphafi árs 2016 rétt undir nafnverði í lokuðu ferli. Tólf sveitarfélög fylgdu Akureyrarbæ í blindni og seldu á sama verði og Akureyrarbær.

Sigurður Guðmundsson
„Það er að koma betur og betur í ljós að bæjarfulltrúar voru blekktir, þeir ekki með réttar upplýsingar og KEA eignast þarna félag sem býr til góðan hagnað. Þeir höfðu menn í stjórn og vissu nákvæmlega framtíðaráformin á meðan bæjarfulltrúar vissu lítið um málið og reiddu sig á upplýsingar fjármálastjóra bæjarins,“ segir Sigurður Guðmundsson, kaupmaður á Akureyri og fyrrverandi bæjarfulltrúi, en hann gagnrýndi harðlega sölu bæjarins á hlutnum í Tækifæri á síðasta ári.

Eign Akureyrarbæjar var færð í bækur bæjarins upp á um 116 milljónir króna sem segir okkur að Akureyrarbær taldi fyrirtækið metið á um 900 milljónir. Bærinn seldi hlut sinn í lokuðu ferli og samþykkti beiðni KEA um að færa málið í trúnaðarbók félagsins á sínum tíma. Bærinn var harðlega gagnrýndur fyrir að hafa farið með eignir bæjarbúa á þennan hátt og ekki tryggt hæsta mögulega verð fyrir hlut bæjarbúa. Hlutdeild Akureyrarbæjar í hagnaði félagsins fyrir þetta eina ár, ef bærinn hefði ekki selt hlut sinn, hefði því verið um 86 milljónir, eða sem nemur um 75 prósent af söluandvirðinu.

„Við skoðuðum það á sínum tíma hvort hægt væri að láta kaupin ganga til baka," segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs. „Við töldum á þeim tíma að þetta væri ásættanlegt verð. Fjármagnið sem fékkst við söluna hefur meðal annars verið nýtt til að stofna frumkvöðlasetur en að öðru leyti vísa ég í bókun bæjarráðs frá 13. október þar sem bæjarráð fer yfir málið.“

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri segir það ekki eiga að vera hlutverk sveitarfélaga að sýsla með fyrirtæki eins og Tækifæri. „Akureyrarbær fékk greitt fyrir hlut sinn það sama og það lagði út í upphafi. Maður veltir því fyrir sér hvort bærinn eigi að eiga hlut í fyrirtækjum sem þessum.“

Ekki náðist í Halldór Jóhannsson, forstjóra KEA og stjórnarformann Tækifæris, við vinnslu fréttarinnar. Tekið skal fram að stjórn Tækifæris leggur ekki til að greiddur verði arður til hluthafa vegna afkomu síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×