Erlent

Skipuleggur karlmannslausa tónlistarhátíð eftir tíð kynferðisbrot á Bråvalla-hátíðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Emma Knyckare varpaði fyrst fram hugmyndinni á Twitter á sunnudagskvöld.
Emma Knyckare varpaði fyrst fram hugmyndinni á Twitter á sunnudagskvöld. Wikipedia Commons/EPA
Sænski grínistinn og útvarpskonan Emma Knyckare stefnir nú að því að halda tónlistarhátíð þar sem öllum karlmönnum verður meinaður aðgangur.

Þetta gerir hún í kjölfar fjölda ofbeldisbrota á nýafstaðinni Bråvalla-hátíðinni þar sem tilkynnt var um 22 líkamsárásir og fjórar nauðganir. Skipuleggjendur hátíðarinnar hafa þegar sagt að hún verði ekki haldin að ári.

Knyckare varpaði fyrst fram hugmyndinni á Twitter á sunnudagskvöldinu. „Hvað finnst ykkur um við hendum upp svakalegri hátíð þar sem aðrir en karlmenn eru velkomnir og sem við höldum gangandi þar til að ALLIR karlmenn læri hvernig eigi að haga sér?“ sagði Knyckare.

Og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. „Þetta varð að alveg risadæmi á örfáum klukkustundum,“ segir Knyckare í samtali við DN. „Nærri þúsund manns hafa verið í sambandi og vilja hjálpa til, allt frá almannatengslum til hreinsunarstarfs.“

Knyckare segir jafnframt að listakonur eins og Linnea Henriksson, Julia Frej og Cleo Missaoui hafi nú þegar samþykkt að troða upp.

Að konur finni fyrir öryggi

„Hverjir eru það sem nauðga? Jú, karlmenn. En ef við skipuleggjum tónlistarhátíð þar sem þeir mega ekki koma? Það var þannig sem ég hugsaði. Mér finnst það hræðilegt að hálf þjóðin skuli finna fyrir óöryggi. Þannig að þegar á næsta ári verður annar möguleiki í boði: Rokkhátíð þar sem stelpur geta fundið fyrir öryggi,“ segir Knyckare.

Aðspurð um hvort ekki sé verið að mismuna með slíkri hátíð segist hún ekki líta þannig á málið.

„En af því að það virðist vera í góðu lagi að mismuna konum að staðaldri þá er það kannski í lagi að útiloka karlmenn í þrjá daga. Ég myndi ekki kalla það árás að fá ekki að fara á tónlistarhátíð. Auk þess hefur Magnus Betnér [sænskur grínisti] boðist til að þrífa svæðið eftir hátíðina. Þannig að þetta verður ekki algerlega laust við karlmenn,“ segir Knyckare.

Ekki er komin tímasetning á fyrirhugaða tónlistarhátíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×