Innlent

MR-ingar auglýsa sjálfir eftir nýjum rektor

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nemendur Menntaskólans í Reykjavík eru langþreyttir á ástandinu.
Nemendur Menntaskólans í Reykjavík eru langþreyttir á ástandinu. Vísir/Stefán
Skólafélag Menntaskólans í Reykjavík auglýsti sjálft stöðu rektors lausa til umsóknar í atvinnuauglýsingum Fréttablaðsins í morgun. Formaður skólafélagsins segir nemendur hafa ákveðið að grípa sjálfir til aðgerða og vekja athygli á viðbragðaleysi menntamálaráðherra í málinu.

Elín María Árnadóttir, inspector scholae.
Yngvi Pétursson, núverandi rektor MR, lætur af störfum 1. ágúst næstkomandi en staða rektors hefur enn ekki verið formlega auglýst laus. Elín María Árnadóttir, formaður skólafélags MR, segir í samtali við Vísi að engar skýringar hafi borist frá menntamálaráðuneytinu.

„Undir eðlilegum kringumstæðum hefði Menntamálaráðuneytið strax farið í það verk að finna eftirmann hans. Það hefur þó ekki verið gert. Staðan hefur ekki enn verið auglýst og hvorki skólastjórn, kennarar né nemendur hafa fengið svör frá ráðuneytinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.“

Í auglýsingunni, sem birtist í morgun á smáauglýsingasíðu Fréttablaðsins í flokknum „Atvinna“, eru umsækjendur beðnir að senda umsóknir sínar á netfang menntamálaráðherra. Í auglýsingunni, sem sjá má hér að neðan, segir:

„Skólafélag MR auglýsir lausa til umsóknar stöðu rektors Menntaskólans í Reykjavík. Umsóknir skulu sendar á netfangið kristjanj@althingi.is sem allra fyrst.“

Auglýsingin sem MR-ingar létu birta í Fréttablaðinu í morgun.Skjáskot
Elín María segir nemendur og starfsfólk skólans langþreytt á ástandinu og hafi því ákveðið að grípa til aðgerða. Þá sé auglýsingunni einnig ætlað að aðstoða ráðherra við verkefnið – ef ske kynni að hann hefði ekki úr viðeigandi verkfærum að moða.

„Vandamálið gæti auðvitað verið það að ráðherra hefur einfaldlega ekki fundið grafískan hönnuð til að útbúa auglýsingu fyrir sig. Þess vegna ákváðum við að hjálpa honum og auglýstum fyrir hann í Fréttablaðinu í dag.“


Tengdar fréttir

Ekki á dagskrá að sameina MR og Kvennó

Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, segir að ekkert sé til í vangaveltum um að sameina eigi Menntaskólann í Reykjavík og Kvennaskólann.

Óttast sameiningu MR og Kvennaskóla

Staða rektors Menntaskólans í Reykjavík hefur ekki verið auglýst. Meira en mánuður síðan núverandi rektor tilkynnti um starfslok sín. Fyrrverandi rektor MR óttast frekari skólasameiningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×