Erlent

Steely Dan stríð í uppsiglingu

Birgir Olgeirsson skrifar
Walter Becker og Donald Fagen árið 1977.
Walter Becker og Donald Fagen árið 1977. Vísir/Getty
Aðdáendur bandarísku sveitarinnar syrgja margir hverjir enn einn af stofnendum sveitarinnar, Walter Becker, sem féll frá í haust.

Sá sem stofnaði sveitina með Becker er Donald Fagen en þeir sem höfðu vonast til að sjá sveitina á sviði með Fagen á næstunni gætu þurft að bíða í einhvern tíma, því fyrir hendi er barátta fyrir dómstólum um stjórn á hljómsveitinni.

Tónlistartímaritið Rolling Stone greinir frá þessu en þar kemur fram að Fagen hafi höfða mál á hendur dánarbú Beckers með það að markmiði að fá fulla stjórn á hljómsveitinni.

Áður en Steely Dan sendi frá sér sína fyrstu plötu, Can´t Buy a Thrill, árið 1972 skrifuðu þeir Fagen og Becker undir samkomulag þess efnis að ef einhver ef meðlimum bandsins myndi hætta eða deyja, þá myndi fyrirtækið sem heldur utan um rekstur sveitarinnar kaupa alla hluti viðkomandi í fyrirtækinu.

Walter Becker og Donald Fagen á sviði árið 2003.Vísir/Getty
Í stefnu Fagens er því haldið fram að fjórum dögum fyrir fráfall Beckers þriðja september síðastliðinn hafi Fagen borist bréf frá búi hans þar sem kveðið var á um að þetta samkomulag sem þeir rituðu undir árið 1972 væri ekki lengur í gildi.

Í bréfinu var farið fram á að ekkja Beckers, Delia Becker, yrði skipuð stjórnandi Steely Dan og myndi eignast 50 prósent í fyrirtækinu sem sér um rekstur sveitarinnar.

Málshöfðun Fagens gengur út á að fá fulla stjórn á hljómsveitinni og að samkomulagið verði virt með því að fyrirtækið kaupi alla hluti Beckers.

Fagen hefur einnig stefnt umboðsskrifstofunni Nigro, Karlin, Segal & Bolno. Fyrirtækið hefur einnig séð um bókhald sveitarinnar en Fagen heldur því fram að fyrirtækið hafi leynt upplýsingum fyrir honum, þar á meðal upplýsingum um stefgjöld og tekjur af tónleikaferðalögum, ásamt „annarri pukurslegri hegðun“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×