Erlent

Gosmökkur rís upp í fjögur þúsund metra hæð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lítill drengur tekur mynd af gosmekkinum. Indónesísk yfirvöld hafa fyrirskipað að fólk haldi sig í tryggilegri fjarlægð frá eldfjallinu Agung.
Lítill drengur tekur mynd af gosmekkinum. Indónesísk yfirvöld hafa fyrirskipað að fólk haldi sig í tryggilegri fjarlægð frá eldfjallinu Agung. Vísir/afp
Gríðarlegan reykjarmökk leggur nú frá eldfjallinu Agung á indónesísku eyjunni Balí en stólparnir hafa náð allt að fjögurra kílómetra hæð.

Mikil virkni er í eldfjallinu um þessar mundir. Breska dagblaðið Guardian greinir frá því að fjallið hafi gosið í gærkvöldi og þá mældust þrjú gos snemma á sunnudagsmorgun.

Flugfélög hafa þurft að aflýsa flugferðum vegna hættu á gosi og þá hefur svokölluð „rauð viðvörun“ tekið gildi. Viðvörunin gefur til kynna að stórt eldgos sé yfirvofandi og að töluvert öskufall verði vegna þess. Yfirvöld á Balí dreifa nú grímum á svæðum þar sem öskufalls gætir nú þegar, að því er fram kemur í frétt BBC.



Mynd, sem tekin var að kvöldi til við eldfjallið Agung á Balí, sýnir rauðan gosmökkinn.Vísir/AFP
Ekki enn haft teljandi áhrif á ferðamannaparadís

Gosmökkinn leggur í austurátt og yfir eyjuna Lombok en alþjóðaflugvellinum eyjunni hefur verið lokað vegna öskunnar. Gosið virðist ekki enn hafa áhrif á helstu ferðamannasvæði á Balí, heimaeyju Agung og vinsælan áfangastað ferðamanna, en svæðin standa enn opin að stærstum hluta. Yfirvöld hafa þó gert öllum í 7,5 kílómetra radíus frá eldfjallinu að yfirgefa svæðið hið snarasta.

Um 140 þúsund manns var gert að flýja heimili sín í september síðastliðnum. Þá hafði eldvirkni í Agung aukist til muna en flestir sneru þó aftur til síns heima í lok mánaðarins. Síðan þá hafa einhverjar hreyfingar mælst í fjallinu, þó ekki eins miklar og nú.

Eldfjallið Agung gaus síðast árið 1963. Yfir þúsund manns fórust í gosinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×