Innlent

Bylting í sölu á smjöri

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sala smjörs á Íslandi hefur aukist um rúmlega níutíu prósent á síðustu tíu árum. Skrifstofustjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði segir byltingu hafa orðið í sölu á fituríkari afburðum. 

Ef horft er á sölu síðustu tíu ára sést að sala á venjulegum rjóma hefur aukist um fjörutíu prósent frá 2007 til 2017 og sala smjörs um rúm níutíu prósent á sama tímabili.

„Stóru breytingarnar sem hafa orðið er gríðarleg aukning áöllum fituríkari vörum í mjólkurafurðunum. Það þarf 37 þúsund tonnum meira af mjólk í fituríkar vörur áÍslandi í dag heldur en fyrir tíu árum síðan. Meira að segja nýmjólkin. Hún er hætt að dragast saman. Það er bara bylting fráþví sem verið hefur,“ segir Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði.

Bjarni telur þessa byltingu í sölu á fituríkari afurðum tilkomna vegna breytinga á matarvenjum fólks.  „Það kemur inn Ketó. Það er lágkolvetna,“ segir Bjarni og bætir við að hugarfar fólks til feitari mjólkurvara sé breytt. Bjarni tekur forsíðu breska dagblaðsins Time sem dæmi, en þar prýddi smjörklípa forsíðuna fyrir tveimur árum undir fyrisögninni „borðið smjör“. „Time leiðrétti sig,“ segir Bjarni en nokkrum árum áður hafði verið fjallað um óhollustu fituríkra mjólkurvara.

Þá hefur sala á innlendum ostum aukist um tæp þrjátíu prósent síðustu tíu ár. Samdráttur er í sölu flestra fituminni osta en söluaukning í feitari ostum er sextíu og fimm prósent á tímabilinu. „Íslendingar hafa slegist við frakka um efsta sætiðí neyslu á osti á heimsvísu á mann,“ segir Bjarni. Til að svara árlegri eftirspurn Íslendinga eftir mjólk og mjólkurvörum þarf nú 417 lítra af mjólk á mann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×