Fótbolti

Enrique líklegastur til að taka við Spáni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Luis Enrique var sigursæll með Barcelona
Luis Enrique var sigursæll með Barcelona Vísir/Getty
Spænskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Luis Enrique sé fyrsti kostur spænska knattspyrnusambandsins í starf landsliðsþjálfara en Fernando Hierro er hættur eftir að hafa óvænt stýrt liðinu á HM í Rússlandi.

Hierro var yfirmaður knattspyrnumála hjá spænska knattspyrnusambandinu en tók við þjálfun liðsins tveimur dögum fyrir fyrsta leik Spánar á mótinu þar sem að Julen Lopetegui var rekinn eftir að tilkynnt var um ráðningu þess síðarnefnda hjá Real Madrid.

Spánverjar féllu úr leik í 16-liða úrslitum eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn Rússum.

Samkvæmt fréttum frá Spáni þykir Enrique, fyrrum stjóri Barcelona, líklegastur til að taka við þjálfarastarfinu en spænska knattspyrnusambandið hefur einnig íhugað að ráða Quique Sanchez Flores, Paco Jemez eða Pepe Mel sem eru allir án starfs.

Enrique lék 62 landsleiki fyrir Spán á sínum tíma en hann spilaði bæði með Real Madrid og Barcelona á leikmannaferli sínum.

Þá hefur Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Belga, verið orðaður við starfið en hann á í viðræðum við belgíska knattspyrnusambandið um nýjan samning auk þess að vera enn með lið sitt á HM í Rússlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×