Innlent

Níu þúsundasti íbúinn í Árborg kemur í janúar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það er meira en  nóg að gera í allri pappírsvinnu í Ráðhúsi Árborgar þegar íbúum fjölgar jafn hratt og raun ber vitni því það þarf að skrá alla og halda utan um allar helstu upplýsingar.
Það er meira en  nóg að gera í allri pappírsvinnu í Ráðhúsi Árborgar þegar íbúum fjölgar jafn hratt og raun ber vitni því það þarf að skrá alla og halda utan um allar helstu upplýsingar. vísir/eyþór
Bráðabirgðatölur sýna að íbúar í Árborg hafi verið 8.998 í sveitarfélaginu hinn 1. janúar 2018. Það er því bara dagaspursmál hvenær sveitarfélagið nær 9.000 íbúa markinu. „Það mun gerast á fyrstu dögum janúar ef að líkum lætur. Meðalfjölgun á mánuði allt síðasta ár hjá okkur var um 43-45 manns,“ segir Ásta Stefánsdóttir bæjarstjóri.

Íbúum í Árborg fjölgaði um 523 á nýliðnu ári miðað við fyrstu tölur eða 6,17%. Fjölgað hefur í öllum byggðakjörnunum og í dreifbýlinu. Á Selfossi fjölgar mest, eða um 423, og á Stokkseyri um 49. Ásta á von á því að fjölgunin haldi áfram 2018. „Já, ég á von á því að það muni eitthvað halda áfram að fjölga á næsta ári, jafnvel þó að eitthvað kunni að hægja á. Það er mikið af húsnæði í byggingu hér enn þá og margar íbúðir munu koma á markaðinn á árinu 2018“, segir Ásta.

Ásta segir mjög ánægjulegt að svona margir skuli velja Sveitarfélagið Árborg sem stað til að búa á enda standist þjónustan allan samanburð á landsvísu.

„Það er líka ánægjulegt að það skuli fjölga fólki alls staðar í sveitarfélaginu. Mörg lítil þorp eru í varnarbaráttu og glíma við fækkun íbúa, en á Eyrarbakka og Stokkseyri fjölgar fólki. Einnig virðast margir telja það góðan kost að búa í dreifbýlinu,“ segir bæjarstjórinn í Árborg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×