Slökkt var á neyðarhemlun sjálfkeyrandi bíls á vegum farveitunnar Uber sem ók á gangandi konu í Bandaríkjunum í mars með þeim afleiðingum að hún lést. Í skýrslu samgönguöryggisnefndar Bandaríkjanna kemur einnig fram að skynjarar bílsins hafi átt erfitt með að greina konuna.
Skynjararnir námu konuna sex sekúndum áður en Volvo XC90-bifreiðina ók á hana. Hugbúnaður bílsins taldi konuna fyrst vera óþekkt fyrirbæri, síðan bifreið og að lokum hjól. Tölvan ákvað að bíllinn þyrfti að nauðhemla 1,3 sekúndum fyrir áreksturinn.
Uber hafði hins vegar aftengt neyðarhemlunina til að koma í veg fyrir að sjálfkeyrandi bílarnir hegðuðu sér á ófyrirsjáanlegan hátt, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Þetta var fyrsta banaslysið af völdum sjálfkeyrandi bíls í Bandaríkjunum. Konan sem lést var 49 ára gömul en hún var að reiða hjólið sitt yfir fjögurra akreina götu við gangbraut í bænum Tempe í Arizona þegar bíllinn ók á hana á 64 kílómetra hraða. Uber ákvað að hætta tilraunum sínum með sjálfkeyrandi bíla í framhaldinu. Nú segist fyrirtækið ætla að hætta tilraunum í Arizona en halda áfram í Pittsburgh og tveimur borgum í Kaliforníu.
Ökumaður sat í bílstjórasæti bílsins en myndband innan úr bílnum bendir til þess að hann hafi ekki verið með augun á veginum rétt fyrir slysið. Ætlast er til þess að ökumennirnir séu tilbúnir að grípa inn í við tilraunirnar með sjálfkeyrandi bíla.
Í kjölfar slyssins var greint frá erfiðleikum sem höfðu plagað tilraunir Uber með sjálfkeyrandi bíla. Þannig þurftu mannlegir ökumenn að grípa mun oftar inn í aksturinn hjá Uber en við tilraunir keppinauta eins og Waymo.
Einnig kom fram að Uber hafði fækkað skynjurum sem greina umhverfi sjálfkeyrandi bílanna. Bílarnir væru þannig með fleiri blindbletti en keppninautarnir og eldri útgáfur bíla fyrirtækisins.
Uber slökkti á neyðarhemlun sjálfkeyrandi bíla

Tengdar fréttir

Tesla-bifreið var á sjálfstýringu þegar hún hafnaði á vegartálma
Bíllinn hafnaði á vegatrálma og fórst ökumaður hans.

Kona lést þegar hún varð fyrir sjálfkeyrandi bíl
Bíllinn var á vegum akstursþjónustunnar Uber. Bílstjóri var undir stýri en sjálfstýringin var í gangi.

Sjálfkeyrandi bílar Uber í basli fyrir banaslysið
Tilraunir fyrirtækisins höfðu ekki gengið eftir væntingum og ökumenn þurftu að grípa mun oftar inn í en hjá öðrum fyrirtækjum sem vinna að því að þróa sjálfkeyrandi bíla.

Uber hafði fækkað skynjurum á sjálfkeyrandi bílum fyrir banaslys
Aðeins einn leysinemi var á Uber-bíl sem ók á gangandi konu í síðustu viku. Framleiðandi nemanna segir að fleiri þurfi að vera til staðar til að forðast blindbletti.