Áhugamálin eru mörg en Guðný segir að sér finnist einna skemmtilegast að ferðast og njóta lífsins með fjölskyldu og vinum. „Ég hef líka mikinn áhuga á förðun. Sjálf lærði ég förðun við Reykjavík Make Up School og útskrifaðist ég þaðan fyrir rúmum tveimur árum.“

Rokkbolir í bland við fínni föt
Þegar Guðný er spurð hvar hún fylgist helst með nýjum tískutrendum segist hún fylgjast með Instagram og skoði Pinterest af og til.„Af því sem ég hef séð verða sumarlegir kjólar með blómamynstri áberandi á næstunni. Það verður líka vinsælt að blanda saman gömlum rokkbolum og fínni flíkum. Svo er ekki spurning um að glær veski, hlébarðamynstur og rautt og bleikt kombó verður í tísku í sumar,“ segir hún.

Á mikið af skóm
Þegar Guðný er spurð hvaða flík sé í uppáhaldi hjá henni kemur í ljós að það er pels sem hún keypti á flóamarkaði fyrr í vor.„Ég keypti þennan pels af eldri manni sem var að selja hann fyrir móður sína sem býr í Texas. Um er að ræða kálfapels sem ég fékk á fimmtíu dollara. Ég get líka alltaf bætt við skóm, þótt ég eigi eiginlega of mikið af þeim. Ég hef ekki ákveðið hvort ég kaupi mér eitthvað nýtt í fataskápinn í sumar en það er aldrei að vita.“
