Hið minnsta 42 hafa látið lífið í hitabylgjunni sem nú gengur yfir Suður-Kóreu. Höfuðborgin Sól hefur borið nafn með rentu síðustu daga en þar náði hitinn 39,6 gráðum í liðinni viku. Ekki hefur mælst hærri hiti í borginni í 111 ár.
Rúmlega 3400 manns hafa leitað á suður-kóresk sjúkrahús vegna hitabylgjunnar frá því í lok maí. Hitinn er þó fyrst sagður hafa orðið óbærilegur um miðjan júlí. Þá byrjaði fólk jafnframt að láta lífið í hitanum. Flestir hinna látnu voru aldraðir eða veikir fyrir. Fimm voru þó við hestaheilsu en höfðu starfað utandyra, þeirra á meðal var rúmlega þrítugur karlmaður og víetnamskur verkamaður á fimmtugsaldri.
Suður-kóresk stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða vegna hitabylgjunnar. Til að mynda hefur hún verið flokkuð sem náttúruhamfarir og gerir það landsmönnum kleift að sækja um bætur. Þá hefur rafmagnsverð verið lækkað og fólk hvatt til að nota orkufrek tæki á borð við loftkælingar og viftur til að kæla sig niður.
Hitabylgjan hefur einnig haft margvísleg önnur áhrif. Fregnir hafa borist af uppskerubresti við landamæri ríkisins að Norður-Kóreu. Fyrir vikið óttast margir að ástandið sé einnig slæmt hjá nágrannanum í norðri þar sem var viðvarandi matvælaskortur fyrir hitabylgjuna. Þá er jafnframt talið að hitinn hafi framkallað efnahvörf í skotfærageymslu hersins sem leiddi til mikillar sprengingar. Þar slasaðist þó enginn.
