Íslenski boltinn

Ejub: Við gerðum það sem þurfti að gera

Einar Sigurvinsson skrifar
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur.
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur. vísir/stefán
„Bara gaman að vera kominn í undanúrslit. Að koma hingað og vinna úrvalsdeildarlið, þetta er bara frábær tilfinning,“ sagði Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur eftir að lið hans sló Víking Reykjavík úr 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í kvöld.

„Mér fannst Víkingur Reykjavík vera betri í fyrri hálfleik, en samt fannst mér þeir ekki skapa nein færi. Í seinni hálfleik náðum við að laga hluti frá fyrri hálfleiknum. Mér fannst seinni hálfleikurinn vera þokkalega jafn.“

Ejub var að vonum ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld.

„Mér fannst við spila vel taktíst. Við gerðum það sem þurfti að gera. Við vorum að vona að við myndum fá eina og eina skyndisókn og skora mark, sem gerðist hér í restina.

Að hans mati var sigurinn fyllilega verðskuldaður.

„Það finnst mér. Það er ekki alltaf sem liðið sem er meira með boltann vinnur leikinn. Við vorum vel skipulagðir og gáfum fá færi á okkur. Við vissum allan tímann hvað við vildum.“

Víkingur Ólafsvík spilaði gífurlega sterkan varnarleik og tókst heimamönnum frá Reykjavík varla að skapa sér í leiknum, hann segir sigurinn þó hafa verið liðsheildarinnar.

„Ég er ekki bara ánægður með varnarlínuna, ég er ánægður með allt liðið.“

Víkingur Ólafsvík mætir Breiðablik í undanúrslitum og leggst sá leikur vel í Ejub.

„Það er alltaf gaman að fara í Kópavoginn, er ekki grasið grænast þar? Við fáum bara góðan leik á grasinu og sjáum til hvað verður,“ sagði Ejub að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×