Erlent

Stjórnmálastéttin minnist Johns McCain: „Hann var alltaf óhræddur við að synda á móti straumnum“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fjölmargir minnast öldungarþingmannsins Johns McCains. Hann var afar virtur og áhrifamikill þingmaður og barðist í Víetnam-stríðinu.
Fjölmargir minnast öldungarþingmannsins Johns McCains. Hann var afar virtur og áhrifamikill þingmaður og barðist í Víetnam-stríðinu. Vísir/AP
Frá því fréttir tóku að spyrjast út af andláti Johns McCains hefur bandaríska þjóðin og fulltrúar stjórnmálastéttarinnar keppst við að mæra og minnast bandaríska öldungarþingmannsins. Þjóðarleiðtogar og framámenn á pólitíska vettvangi votta McCain virðingu sína.

McCain lést í gær eftir að hafa barist við heilaæxli í rúmt ár.

„Við John McCain tilheyrðum mismunandi kynslóðum, við höfðum mismunandi bakgrunn og áttumst við á æðsta vettvangi stjórnmálanna. Það sem við aftur á móti áttum sameiginlegt var trúin á hið æðra; hugsjónirnar sem heilu kynslóðir Ameríkana, sem og innflytjenda, hafa barist fyrir,“ segir Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær.

McCain bauð sig fram til forseta fyrir hönd Repúblikanaflokksins árið 2008 en laut í lægra haldi gegn Obama.

Hann segir að í augum þeirra McCains hafi pólitísk barátta verið göfug í sjálfu sér. Hún hafi verið tækifæri til að þjóna þjóðinni og láta hinar háu hugsjónir verða að veruleika. Þeir hafi litið á Bandaríkin sem stað þar sem allt væri mögulegt.

Obama segir McCain hafa með sínu fordæmi kennt bandarísku þjóðinni að almannaheill gengur alltaf fyrir.

Obama hjónin minnast McCains í yfirlýsingu.Vísir/Getty

Vildi ekki hafa Trump í jarðarförinni

Það vakti athygli í gær að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, vottaði McCain virðingu sína á Twitter í gær þrátt fyrir að það sé ekkert launungarmál að þeir voru óvinir þrátt fyrir að vera samflokksmenn. McCain frábað sér til að mynda viðveru Trumps í jarðför sinni.

Hann var ómyrkur í máli þegar hann gagnrýndi núverandi forseta. McCain kom í veg fyrir að heilbrigðisfrumvarp Repúblikanaflokksins kæmist í gegnum öldungadeildina, Trump til mikillar mæðu.

„Ég votta fjölskyldu þingmannsins Johns McCain mínar dýpstu samúðarkveðjur og virðingu mína,“ segir Trump sem segist biðja fyrir fjölskyldunni.

 

Bush mun sakna vinar síns

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, var einnig á meðal þeirra sem tjáði sig vegna andlátsins. Hann segir McCain hafa verið maður djúprar sannfæringar og hinn mesti föðurlandsvinur. „Og fyrir mig, persónulega, þá var hann vinur sem ég mun sakna sárt,“ segir Bush.

McCain laut í lægra haldi fyrir Bush í slagnum um útnefningu Repúblikanaflokksins í forsetaembættið.

Hillary Clinton, segir að McCain hafi ekki veigrað sér við að leggja flokkshollustuna til hliðar.Fréttablaðið/AP

McCain hafi iðulega synt á móti straumnum

Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaefni Demókrataflokksins, og Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segja í tilkynningu vegna andlátsins að McCain hafi staðið í þeirri trú að hver einasta manneskja þyrfti að axla ábyrgð á stjórnarskrárvörðu frelsi sínu.

„Það var oft sem hann lagði flokkshollustu sína til hliðar til þegar það var best fyrir þjóðina. Hann var alltaf óhræddur að synda á móti straumnum þegar þess gerðist þörf og þegar það reyndist rétt að gera svo,“ segja hjónin í yfirlýsingu.


Tengdar fréttir

John McCain látinn

Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn John McCain er látinn, 81 árs að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×