Erlent

Minnst fjórtán látnir á Filippseyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Um fjórar milljónir manna búa á svæðinu sem fellibylurinn fór yfir og voru þúsundir flutt á brott.
Um fjórar milljónir manna búa á svæðinu sem fellibylurinn fór yfir og voru þúsundir flutt á brott. Vísir/AP
Minnst fjórtán eru dánir eftir að fellibylurinn Mangkhut fór yfir Filippseyjar og olli þar miklum skemmdum. Um fjórar milljónir manna búa á svæðinu sem fellibylurinn fór yfir og voru þúsundir flutt á brott. yfirborð sjávar hækkaði um sex metra á ákveðnum stöðum og flæddi langt inn á land. Talið er að tala látinna muni hækka frekar en svæðið sem Mangkhut fór yfir er strjábýlt og er símasamband víða úti.

Þá hefur björgunaraðilum átt erfitt með að komast um svæðið og skaðinn hefur ekki verið metinn. Meðal hinna látnu eru tveir björgunarmenn sem voru að reyna að bjarga fólki sem varð fyrir aurskriðu.

Einn íbúa sem AFP ræddi við segist hafa orðið vitni að tugum óviðra á ævi sinni. Ekkert hafi hins vegar getað undirbúið hana fyrir Mangkhut, sem er öfulgasta óveður þessa árs.

„Þetta var eins og heimsendir. Þetta var sterkari fellibylur en Lawin," sagði Bebeth Saquing. Lawin er fellibylur sem fór yfir eyjarnar árið 2016.

Yfirvöld Filippseyja segjast þó hafa verið mun betur undirbúin en oft áður. Íbúar hafi verið varaðir við með miklum fyrirvara, skólum hafi verið lokað og herinn hafi verið settur í viðbragðsstöðu.

Mangkhut er nú á leið til Kína og Hong Kong. Fellibylurinn missti þó einhvern styrk yfir Filippseyjum. Í Hong Kong búa íbúar og yfirvöld sig undir átökin og þá sérstaklega fyrir sjávarflóð sem búist er við að verði mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×