Innlent

Undirstrikar að framboð á vændi er verulegt og heldur áfram að aukast

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Snorri Birgisson er lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fer fyrir mansalsteymi hennar.
Snorri Birgisson er lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fer fyrir mansalsteymi hennar. Vísir/Anton
Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þeir níu einstaklingar sem fengu viðvörun frá lögreglu í vikunni vegna þess að þeir voru að auglýsa vændisstarfsemi sína hafi allt verið erlendir ríkisborgarar. Ólöglegt er að auglýsa vændi. Þá eru kaup á vændi einnig ólögleg og voru tveir kærðir fyrir það, einn Íslendingur og útlendingur með fasta búsetu hér.

Um var að ræða átak sem var hluti af námskeiði innan lögreglunnar þar sem sænskir lögreglumenn komu hingað til lands með fræðslu um rannsóknir vændismála og aðgerðir tengdar þeim. Lögreglumenn frá öllum lögregluembættum landsins sátu námskeiðið og tóku þátt í átakinu þar sem afskipti voru höfð af ellefu einstaklingum vegna vændis.

Vændið fór fram í leiguíbúðum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og vissu eigendur íbúðanna ekki af því. Snorri segir að þessar aðgerðir lögreglunnar nú undirstriki að framboð á vændi er verulegt hér á landi.

Dæmi um að fólk flakki á milli Norðurlandanna til að stunda vændi

„Þetta hefur aukist og er að aukast þannig að þetta undirstrikar það sem við höfum bent á. Þessi markaður hefur færst út af hótelherbergjum og út í íbúðahverfin og í þessum tilfellum miðsvæðis í Reykjavík,“ segir Snorri.

Íbúðirnar hafi verið bókaðar í gegnum bókunarsíður á netinu en aðspurður hvort að einstaklingar séu þá að koma hingað í stuttan tíma til þess að stunda vændi segir Snorri að sumir komi hingað í fjóra til fimm daga og aðrir dvelji hér í allt að tvær vikur.

„En kannski ekki mikið lengur en það. En við vitum það náttúrulega að þessir einstaklingar, og þeir greina frá því, að þeir flakka á milli Norðurlandanna. Við ræddum núna við aðila sem hafa verið hér áður,“ segir Snorri.

Hann segir að allir þessi níu einstaklingar sem voru að auglýsa vændi á netinu hafi sagst vera sjálfstæðir og vildu þeir enga aðstoð þiggja. Þeim var bent á að auglýsingarnar væru ólöglegar og því beint til þeirra að loka síðunum, ella yrðu þeir kærðir fyrir brot á vændislöggjöfinni.

Aðspurður hvernig tekið hafi verið í þessar viðvaranir segir Snorri að sumir hafi tekið þessu vel og eytt auglýsingunum strax en aðrir hafi séð þann kost að fara einfaldlega úr landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×