Innlent

Eldurinn í Perlunni kviknaði út frá logsuðutæki

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skemmdir á Perlunni skoðaðar daginn eftir brunann.
Skemmdir á Perlunni skoðaðar daginn eftir brunann. vísir/ernir
Eldurinn sem kom upp í Perlunni á þriðjudag kviknaði út frá logsuðutæki. Þetta segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Rannsókn tæknideildar lögreglu er lokið og er málið nú í höndum tryggingarfélaga.

„Það voru þarna iðnaðarmenn að logsjóða gat á einn tankinn og það kviknaði þarna í klæðningu með þessum afleiðingum,“ segir Jóhann Karl.

Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um klukkan 14.30 á þriðjudag vegna eldsins. Mikinn reyk lagði frá tanknum þar sem eldurinn kom upp og gekk erfiðlega að komast að rótum eldsins vegna klæðningarinnar utan á honum.

Inni í tanknum þar sem eldurinn kviknaði er stefnt á að setja upp stjörnuver í haust. Þau áform eru óbreytt og þá tefur bruninn opnun mikillar sýningar um náttúru Íslands aðeins um nokkra daga. Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Perlu norðursins, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í vikunni að tjónið væri minna en búist var við en bæði reykur og vatn ollu tjóni inni í Perlunni.


Tengdar fréttir

Slökkvistarfi lauk um klukkan tvö í nótt

Slökkviliðsmönnum gekk erfiðlega að komast að rótum en lagði áherslu á að verja aðalbygginguna en þar inni er búnaður metinn á um eða yfir tvo milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×