Innlent

Kristján Loftsson tók við frelsisverðlaunum SUS fyrir baráttu sína fyrir hvalveiðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristján Loftsson ávarpaði samkomuna í Valhöll í gærkvöldi.
Kristján Loftsson ávarpaði samkomuna í Valhöll í gærkvöldi. SUS
Frelsisverðlaun Sambands ungra Sjálfstæðismanna voru veitt við hátíðlega athöfn í Valhöll í gærkvöldi. Var þetta í tólfta sinn sem verðlaunin voru veitt en Ingvar S. Birgisson, formaður SUS, ávarpaði fundinn og veitti verðlaunin fyrir hönd stjórnarinnar.

Voru verðlaunin veitt einum einstaklingi og einum lögaðila. Í tilkynningu frá SUS kemur fram að báðir verðlaunahafar í ár eigi það sameiginlegt að berjast fyrir auknu atvinnufrelsi.

Sá einstaklingur sem hlaut verðlaunin í ár er Ásdís Halla Bragadóttir fyrir „áralanga baráttu sína fyrir auknu valfrelsi í heilbrigðis- og menntamálum“, líkt og það er orðað í tilkynningunni.

„Sem bæjarstjóri Garðabæjar studdi hún við sjálfstæðan rekstur skóla í sveitarfélaginu. Hefur það leitt til þess að skólakerfið í Garðabæ er fjölbreyttara, sveigjanlegra og þjónustar nemendur betur en ella. Þá hefur Ásdís verið áberandi í umræðunni á þessu ári um baráttu Kliníkurinnar í Ármúla fyrir sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu. Slíkur rekstur bætir þjónustu við sjúklinga, styttir biðraðir og nýtir skattfé betur,“ segir í tilkynningunni.

Lögaðilinn sem var verðlaunaður er Hvalur hf. en forstjóri félagsins, Kristján Loftsson, tók við verðlaununum.

„Hvalur hf. hlaut verðlaunin fyrir baráttu sína fyrir hvalveiðum á Íslandsmiðum. Hvalveiðar fela í sér mikilvægt atvinnufrelsi en Hvalur hf. hefur í fjölmörg ár barist fyrir því að veiðar á hvölum séu leyfðar, enda er um sjálfbæra nýtingu að ræða sem styðst við vísindaleg gögn,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×