Fótbolti

Aron Einar: Svekkjandi að þetta sé búið því okkur langar ekkert heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson grínast með Luca Modric eftir leik.
Aron Einar Gunnarsson grínast með Luca Modric eftir leik. Vísir/Vilhelm
Aron Einar Gunnarsson segir að íslensku strákarnir hafi notið þess að spila á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

„Við vildum gefa allt í þetta og það er hægt að segja að við gerðum það. Við skildum allt eftir á vellinum,“  sagði Aron Einar Gunnarsson, fyriliði íslenska fótboltalandsliðsins, í viðtali við Eddu Sif Pálsdóttur í útsendingu Sjónvarpsins frá leiknum.

„Það fóru flott færi forgörðum í dag og við hefðum getað klárað þennan leik sem er svekkjandi. Ég er gífurlega stoltur af strákunum og öllu í kringum þetta því þetta er búið að vera frábært,“ sagði Aron Einar.

„Við nutum þess að spila og ég sá það á strákunum. Það var kraftur í okkur og það er svekkjandi að þetta sé búið því okkur langar ekkert heim. Það er bara spurning um að vera bara eftir hérna,“ sagði Aron Einar en hversu magnað var fyrir Aron Einar að yfirstíga meiðslin og ná þessum leikjum.

„Að ég hafi náð 75, 87 og 90 mínútum. Ég bjós ekki við því en mér líður vel. Þetta er ekki spurning um mig. Auðvitað langaði manni að vera með og spila á HM en ég er fyrst og fremst gífurlega stolur af strákunum,“ sagði Aron Einar.

„Við getum borið höfuðuð hátt og verið stoltir af okkur sjálfum. Vonandi eru Íslendingar stoltir af liðinu og þá sérstaklega frammistöðunni í dag. Tilfinningin er svekkelsi og þá sérstaklega eftir Nígeríuleikinn því við vorum inn í honum. Núna fannst okkur að við áttum að vinna þennan leik. Það sýnir bara á hvaða stað við erum í dag. Við þurfum að halda áfram því við erum ekkert hættir,“ sagði Aron Einar.

„Það er nóg eftir af þessu hjá okkur. Það eru einhverjir komnir á smá aldur en mér líður vel með þennan hóp. Þetta er frábær hópur og við getum verið stoltir af okkur,“ sagði Aron Einar en verður Ísland á næsta EM.

„Klárlega,“ sagði Aron Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×