Erlent

Franskir slátrarar vilja vernd fyrir herskáum grænkerum

Kjartan Kjartansson skrifar
Veganismi hefur átt vaxandi vinsælda að fagna, ekki aðeins hjá dýravinum heldur einnig þeim sem vilja hjálpa til við að berjast gegn loftslagsbreytingum á jörðinni.
Veganismi hefur átt vaxandi vinsælda að fagna, ekki aðeins hjá dýravinum heldur einnig þeim sem vilja hjálpa til við að berjast gegn loftslagsbreytingum á jörðinni. Vísir/EPA
Samtök franskra slátrara hafa ritað ríkisstjórn landsins þar sem þau óska eftir vernd fyrir herskáum grænkerum sem þau saka um að reyna að ganga af kjötáti í landinu dauðu. Ráðist hafi verið á kjötbúðir víða um Frakkland að undanförnu.

Þrátt fyrir að grænmetisætur og grænkerar séu aðeins lítið brot af frönsku þjóðinni varar Jean-Francois Guihard, formaður samtaka slátrara, við því að þeir vilji þröngva lífsstíl sínum og jafnvel hugmyndafræði upp á meginþorra fólks.

Fullyrðir hann að gerviblóði hafi verið skvett á fimmtán kjötbúðir í landinu og slagorð gegn kjötáti hafi verið krotuð eða límd á þær. Líkir hann árásunum við hryðjuverk.

„Þetta er ótti sem þetta fólk reynir að vekja í þeim tilgangi sínum að láta heilan hluta af franskri menningu hverfa,“ segir Guihard sem sakar fjölmiðla um að hafa gert of mikið úr lífsstíl grænkera.

Dregið hefur úr sölu á kjöti í Frakklandi undanfarið, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Bændasamtök hafa krafið ríkisstjórnina um að koma í veg fyrir aðgerðir sem þau telja að gangi gegn kjötáti. Þannig vilja þau að hætt verði að nota hugtök eins og „steik“, „lund“, „beikon“ og „pylsa“ um vörur sem ekki eru unnar úr kjöti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×