Erlent

Banna sjálfsmyndatöku vegna tíðra og mannskæðra slysa

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Áhættusækin hegðun virðist oft vera hvimleiður fylgifiskur sjálfsmyndatöku
Áhættusækin hegðun virðist oft vera hvimleiður fylgifiskur sjálfsmyndatöku Vísir/Getty
Yfirvöld í indverska ríkinu Góa hafa bannað sjálfsmyndatöku á 24 afmörkuðum svæðum við ströndina vegna tíðra og mannskæðra slysa.

Hvergi í heiminum verða fleiri sér að voða við þá iðju að mynda sjálfan sig en á Indlandi. Samkvæmt alþjóðlegri rannsókn voru 127 skráð tilfelli þar sem fólk féll frá fyrir aldur fram vegna sjálfsmyndatöku frá 2014 til 2015. Þar af voru 76 á Indlandi eða tæp 60% allra tilfella.

Fyrir rúmri viku dóu tveir ferðamenn sem voru að reyna að ná fullkominni ljósmynd af sér á stórum klettum í Góa, þar sem mikill brimgarður var fyrir neðan. Alda sópaði þeim út á haf og var það ekki í fyrsta sinn á þessum sama stað.

Góa tekur á móti meira en sex milljón ferðamönnum á hverju ári. Yfirvöld eru nú byrjuð að merkja sérstaklega hættulega staði þar sem bannað er að taka sjálfur.

Talsmaður fyrirtækis, sem sinnir björgunarstörfum í Góa, segir ekki seinna vænna að hringja öllum viðvörunarbjöllum vegna þess mikla manntjóns sem sjálfur hafi valdið.


Tengdar fréttir

Létust við sjálfsmyndatöku

Karl og kona létust þegar þau reyndu að taka sjálfsmynd á vinsælum ferðamannastað í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×