Erlent

Kolsýruskortur stöðvar framleiðslu á kóki

Kjartan Kjartansson skrifar
Skorturinn hefur enn ekki komið niður á vöruframboði Coca-Cola.
Skorturinn hefur enn ekki komið niður á vöruframboði Coca-Cola. Vísir/EPA
Gosdrykkjaframleiðandinn Coca-Cola hefur þurft að stöðva framleiðslu á sumum vörum í Bretlandi tímabundið vegna skorts á koltvísýringsgasi. Skorturinn hefur ekki komið niður á vöruafhendingu enn sem komið er en fleiri drykkjaframleiðendur hafa einnig lent í vandræðum vegna hans.

Að minnsta kosti fimm stórir framleiðendur kolsýru í norðanverðri Evrópu hafa lokað verksmiðjum sínum tímabundið vegna viðhalds. Í Bretlandi er þannig aðeins einn stór framleiðandi starfandi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Í yfirlýsingu segir Coca-Cola á Bretlandi að fyrirtækið reyni nú að koma í veg fyrir að skorturinn hafi áhrif á vöruframboð. Enn sem komið er hafi fyrirtækið geta fyllt pantanir kaupenda.

Koltvísýringsskorturinn kemur ekki aðeins niður á gosdrykkjaframleiðendum. Breskir kjúklingaræktendur hafa varað við því að loka þurfi 60% af vinnslustöðvum fyrir kjúklingakjöt á næstu dögum. Gasið er notað í byssur sem notaðar eru til að drepa búfénað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×