Erlent

Kengúra réðst inn á völlinn og tafði leik um hálftíma

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Það er ekki bara mannfólkið sem er upptekið af fótbolta um þessar mundir á meðan HM er á fullum gangi í Rússlandi. Kengúra gerði sig heimakomna á fótboltaleik á milli kvennaliða Canberra FC og Belconnen United í Canberra í Ástralíu í gær.

Kengúran stökk inn á völlinn í hálfleik og kom sér makindalega fyrir, en fresta þurfti seinni hálfleik þar sem hún sýndi því engan áhuga á að yfirgefa völlinn.

Ekki gekk að styggja við henni með fótboltum eftir að hún hafði komið sér vel fyrir í öðru markinu en eftir stutta dvöl þar tók hún hraða sókn upp völlinn og þurftu leikmenn að forða sér undan.

Það var ekki fyrr en að vallarstarfsmenn á pallbíl skárust í leikinn að kengúran gerði sér grein fyrir því að hún væri ekki velkomin og stökk hún á brott eftir stuttan eltingarleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×