Enski boltinn

Moyes inn til að klára samninginn?

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Moyes var sá fyrsti til þess að taka við United eftir að Sir Alex Ferguson hætti
Moyes var sá fyrsti til þess að taka við United eftir að Sir Alex Ferguson hætti vísir/getty
Manchester United leitar nú að bráðabirgðastjóra eftir að Jose Mourinho var rekinn í morgun. Stuðningsmenn United hafa grínast með að fá David Moyes inn til þess að klára samningstíma sinn.

Þegar Sir Alex Ferguson hætti hjá United í maí 2013 eftir 27 ár við stjórnina tók Skotinn David Moyes við stjórninni.

Moyes var sagður valinn af Sir Alex sjálfum sem arftakinn og skrifaði undir sex ára samning við félagið. Hann átti sem sagt að stýra liðinu að minnsta kosti til loka tímabilsins 2019.

Augljóslega gekk það ekki upp.

Moyes vann Samfélagsskjöldinn í sínum fyrsta keppnisleik með United en síðan fór undan fæti að halla. Hann var rekinn 22. apríl 2014.

Ryan Giggs tók við sem bráðabirgðastjóri og kláraði tímabilið með United. United endaði það tímabil á að komast ekki í Evrópukeppni, í fyrsta skipti síðan 1990. Louis van Gaal var ráðinn stjóri United í maí 2014.

Van Gaal entist tvö ár í starfi, hann var rekinn tveimur dögum eftir að hafa unnið ensku bikarkeppnina vorið 2016. Þá tók Jose Mourinho við.

Mourinho vann enska deildarbikarinn og Evrópudeildina á sínu fyrsta tímabili og stýrði United í annað sæti deildarinnar í lok síðasta tímabils.

Þegar hálft ár er eftir af upphaflegum samningstíma Moyes hefur United því haft þrjá aðra knattspyrnustjóra. Á þeim tíma hefur Moyes stýrt Real Sociedad, Sunderland og West Ham United.

Það að Ed Woodward og félagar í stjórn United ráði Moyes inn aftur sem bráðabirgðastjóra er eins ólíklegt og það verður. En það yrði skemmtileg saga að hann fengi að klára samninginn eftir allan þennan tíma. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×