Íslenski boltinn

Þróttur sótti sigur í Grenivík

Viktor var á skotskónum í dag
Viktor var á skotskónum í dag vísir/stefán
Ívar Örn Árnason skoraði tvö mörk, eitt fyrir hvort lið, þegar Magni og Þróttur mættust á Grenivík í Inkassodeild karla í dag.

Ívar skoraði fyrsta mark leiksins á 37. mínútu þegar fyrirgjöf Þróttara fór af honum og í eigið net. Karl Brynjar Björnsson skoraði fjórum mínútum síðar og gestirnir frá Reykjavík með 2-0 forystu í hálfleik.

Þegar klukkutími var liðinn af leiknum bætti Ívar Örn Árnason við öðru marki sínu, í þetta sinn í rétt mark, og minnkaði muninn fyrir Magna.

Varamaðurinn Jasper van der Heyden sá hins vegar til þess að Þróttur fór með öll stigin þrjú aftur suður með þriðja marki Þróttara á 84. mínútu. Viktor Jónsson gerði endanlega út um leikinn ef einhverjir Magnamenn eygðu enn von þegar hann skoraði í uppbótartíma. Þróttur fór með 4-1 sigur á Grenivík.

Þróttur er nú með sjö stig í deildinni og fer upp um eitt sæti í það sjöunda. Magni er á botni deildarinnar með þrjú stig líkt og ÍR og Leiknir.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×